Rödd Akureyrar

Gunnar Gíslason
Gunnar Gíslason

Akureyri þarf að endurheimta stöðu sína sem forystusveitarfélag á landsbyggðinni. Þetta var viðkvæðið hjá mörgum viðmælendum okkar í undirbúningsferli stefnuskrár okkar sjálfstæðismanna.  Það skiptir máli hvernig tekið er á málum, þau kynnt og þeim fylgt eftir. Það eru fjölmörg mál sem bíða úrlausnar sem kalla á aðkomu ríkisins eða stofnana á þess vegum. Því þarf rödd okkar að heyrast.

Atvinnumál

Samgöngur skipta fyrirtækin í bænum miklu máli. Framleiðslu-fyrirtækin þurfa að koma vöru á markað víða um land og önnur jafnvel úr landi. Þetta krefst öruggra samgangna. Í vetur sem leið var mikið fannfergi á Norður- og Austurlandi. Þetta þýddi að ófært var austur og suður í nokkra daga.  Þá var einnig tekin umdeild ákvörðun um að moka ekki alla daga austur. Þegar svona gerist þarf rödd bæjaryfirvalda á Akureyri að heyrast hátt og krefjast úrbóta. Við megum ekki eiga á hættu að fyrirtæki telji hag sínum betur borgið nær stærsta markaðnum á höfuðborgarsvæðinu.

Samhliða því að sinna viðhaldi á samgöngumannvirkjum þarf einnig að byggja ný  til að tryggja öruggar og greiðar samgöngur enn frekar. Það gerist ekki nema þrýst sé á rétta aðila þegar kemur að forgangsröðun verkefna, það er hlutverk bæjaryfirvalda.

Velferðarmál

Þjónusta Heilsugæslunnar á Akureyri hefur dregist saman á síðustu árum. Nú er svo komið að fjöldi íbúa hefur ekki sinn heimilislækni og bið eftir þjónustu því oft löng. Læknum þarf að fjölga. Það verður ekki gert nema með auknum fjárveitingum. Fram hefur komið að mikið vantar á að íbúar á Akureyri fái sambærilegt fjármagn til heilsugæslu og íbúar á höfuðborgarsvæðinu.  Þetta kallar á nýjan samning við Velferðarráðuneytið.

Á fundi sem Aflið hélt nýverið kom fram að  kvennaathvarf vantar hér á Akureyri ef vel á að vera. Það verður ekki stofnað nema með aðkomu ríkisins, en það greiðir 75% af rekstrarkostnaði kvennaathvarfsins í Reykjavík.  Það sama má segja um rekstur geðverndarmiðstöðvar sem þörf er fyrir.

Menntamál

Skortur er á iðn- og tæknimenntuðum starfskrafti. Bæjarfélagið getur stuðlað að og haft milligöngu um að slík menntun sé efld á framhaldsskólastigi og tekin upp á háskólastigi.  Þetta er afar brýnt verkefni svo fyritækin sem í hlut eiga geti vaxið og skapað fleiri störf í bænum.

Það er ljóst að ekkert af þessu verður að veruleika nema Akureyri láti í sér heyra sem bæjarfélag. Við þurfum að brýna röddina fyrir OKKAR AKUREYRI.

Gunnar Gíslason.

Gunnar er oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

 

Nýjast