„NO ONE GO TO MAELBEEK TODAY. I am safe!“ Skrifaði Húsvíkingurinn Róbert Hlynur Baldursson á facebook síðu sína í morgun, en Róbert býr og starfar í Brussel sem „Communications Officer/Web Editor“ eins og starfsheitið er á ensku, hjá European Schoolnet.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins og stofnana þess eru aðeins steinsnar frá Maelbeek neðanjarðarlestarstöðinni þar sem sprengja sprakk í morgun með hörmulegum afleiðingum eins og allir vita. Dagskrain.is náði stuttlega sambandi við Róbert Hlyn um klukkan 10 í morgun og spurði hann um ástandið í borginni.
„Það er hrikalegt ástand hér - ég sá þetta gerast þar sem þetta var 200 metra frá skrifstofunni. Við erum bara að fylgjast með fréttum og stöðugt kemur betur í ljós hversu alvarlegt þetta er.“ Sagði Róbert. En samgöngur í Brussel liggja að mestu niðri og fólki þar ráðlagt að halda sig innan dyra, bæði heima hjá sér og í vinnunni.
Og hryðjuverkin í Belgíu höfðu víða áhrif, m.a. á ferðir fólks í Evrópu. Þær mæðgur, Kristjana Helgadóttir frá Grafarbakka á Húsavík og Kristjana dóttir hennar voru staddar í Barcelona og þar skrifaði Didda á facebook í morgun: „Við mæðgur vorum rétt að stíga um borð í vél til Brussel þegar fréttir bárust af voðaverkunum þar. Erum því strandaglópar á flugvellinum í Barcelona og vitum ekkert hvernig fer með tengiflug til Íslands. Þökkum bara fyrir að hafa ekki verið lentar á flugvellinum í Brussel.“
Skömmu síðar var búið að redda þeim mæðgum flugi heim í gegnum London seinni partinn í dag. JS