Rjúpnaveiðitímabilið hafið

Rjúpnaveiðitímabilið hófst í dag en í ákvörðun umhverfisráðherra felst að veiðidagar verða alls 18 á tímabilinu 1. til 30. nóvember. Veiðar verða heimilaðar fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga en sölubann gildir áfram á rjúpu og rjúpnaafurðum. Mælt er með því að veiddir verði að hámarki 38.000 fuglar.

Umhverfisráðuneytið segir, að rjúpum fækki nú annað árið í röð frá síðasta uppsveifluskeiði, en það stóð aðeins yfir í tvö ár samanborið við fjögur til fimm ár í fyrri uppsveiflum rjúpnastofnsins. Að mati Náttúrufræðistofnunar er áætlaður varpstofn nú um 110.000 fuglar og er það fækkun um 70.000 fugla frá því í fyrra. Ráðuneytið segir, að miðað við fyrri reynslu af rjúpnastofninum í niðursveiflum, muni rjúpum fækka næstu þrjú til fjögur árin og veiðiþol stofnsins minnka að sama skapi. Það sé því ljóst að takmarka þarf rjúpnaveiði enn frekar í ár en gert hafi verið á síðustu árum.

Nú geta veiðimenn fært inn rjúpnaveiði í rafræna veiðidagbók á www.ust.is
Gögnin eru persónurekjanleg en Umhverfisstofnun mun einungis nota gögnin almennt og án persónurekjanleika. Sem dæmi má nefna að hægt verður að sjá hversu margar rjúpur veiðast daglega og hvernig veiðin dreifist eftir veiðisvæðum.
Með þessu móti verður hægt að sjá hversu margir veiðimenn skráðu gögn á veiðideginum,
samtals veiði allra veiðimanna þann dag, samtals fjölda klukkutstunda og
meðalveiðiafköst hvers veiðimanns.
Til að fá aðgang þarf veiðimaður að fara inn á heimasíðu Umhverfisstofnunar www.ust.is og slá inn kennitölu og veiðikortanúmer.

Nýjast