02. nóvember, 2007 - 12:25
Samkvæmt fyrstu tölum úr rafrænni veiðidagbók Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar er meðalveiði á klst. fyrsta veiðidaginn í gær um 70% af því sem hún var 2005. Þegar skoðað er hver meðalveiði á klukkustund var fyrsta veiðidag rjúpnaveiðitímans sl. 3 ár kemur eftirfarandi í ljós: 2005 0,937 rjúpa pr. klst., 2006 0,827 rjúpa pr. klst. og 2007 0,648 rjúpa pr. klst - fyrstu tölur úr rafrænni veiðidagbók. Samkvæmt þessu fer rjúpnaveiði rólega af stað en gera má ráð fyrir að eitthvað bætist við af skráningum fyrir fyrsta daginn síðar en þó gefur þetta nokkra vísbendingu. Rafræna veiðidagbókin er skilavefur veiðimanna þar sem þeir geta skráð veiði dagsins.
Gögnin eru persónurekjanleg en Umhverfisstofnun mun einungis nota gögnin almennt og án þess að rakið verði til persónu. Sem dæmi má nefna að hægt verður að sjá hversu margar rjúpur veiðast daglega og hvernig veiðin dreifist eftir veiðisvæðum.
Til að fá aðgang þarf veiðimaður að slá inn kennitölu og veiðikortanúmer.
Með þessu móti er hægt að sjá hversu margir veiðimenn skráðu gögn á veiðideginum,
samtals veiði allra veiðimanna þann dag, samtals fjölda klukkustunda og meðalveiðiafköst hvers veiðimanns.