Langstærsta skip sem nokkru sinni hefur komið til Akureyrar, skemmtiferðaskipið Grand Princess, lagðist að Oddeyrarbryggju í morgun. Um borð eru um 2.900 farþegar og rúmlega 1000 skipverjar. Skipið, sem 109 þúsund tonn að stærð, heldur til Reykjavíkur síðdegis en er væntanlegt aftur til Akureyrar 9. september nk. Stærstu skemmtiferðaskipin sem til Akureyrar hafa komið til þessa hafa verið innan við 80 þúsund tonn. Ferð Grand Princess hófst í Southampton, þaðan var farið til Noregs og Íslands og svo verður haldið til Southampton á ný. Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom til Akureyrar 8. júní sl. en alls verða komur skemmtiferðaskipa 59 í sumar, sem er metfjöldi. Með skipunum koma um 44 þúsund farþegar og í áhöfnum þeirra eru um 22 þúsund manns. Fjöldi þessara ferðamanna skiptir orðið verulegu máli fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. Reiknað er með að tæplega 70% farþeganna fari í rútuferðir í Mývatnssveit og víðar og þúsundir þeirra leggja leið sína í miðbæ Akureyrar. Tvívegis koma þrjú skip sama daginn, á morgun laugardaginn 30. júní og laugardaginn 21. júlí.