Ríkisstjórnin þarfnast hjálpar þinnar

Ögmundur Jónasson fyrrv. alþingismaður og ráðherra
Ögmundur Jónasson fyrrv. alþingismaður og ráðherra

Sennilega væri heppilegri titill á þá leið að ríkisstjórnin þarfnist aðhalds af þinni hálfu – og okkar allra – ekki síst þegar Evrópumálin eru annars vegar. Staðreyndin er nefnilega sú að án þrýstings utan úr þjóðfélaginu mun hún ótrauð halda áfram aðlögun að Evrópusambandinu til þess að gera endanlega innlimun Íslands sem smurðasta. Og það hugtak á svo sannarlega rétt á sér. Þegar ríkisstjórn sem ég átti sæti í á árunum sótti illu heilli um viðræður við Evópusambandið árið 2009 um hugsanlega aðild Íslands tóku okkur fljótlega að berast vel útilátnir styrkir, svokallaðir IPA styrkir sem nota átti til aðlögunar. Þetta kallaðist og kallast enn „foraðildarstuðningur“. Evrópusambandið veitir með öðrum orðum ríkjum sem hafa sótt um aðild stuðning samkvæmt svokallaðri IPA-áætlun (e. Instrument for Pre-accession Assistance) til þess að þau geti hreinlega runnið inn í sambandið, smurð og sæl með úttroðna vasa af aðlögunarfé. Einhvern tímann hefði verið fundið annað heiti á þennan fjárstuðning þótt „foraðildarstuðningur“ sé í sjálfu sér gagnsætt og lýsandi hugtak.

Aðlögun en ekki samningar

En svo vikið sé aftur til kjörtímabilsins 2009 til 2013 þá rann svo smám saman upp fyrir öllum sem vildu sjá að “samningaviðræður” sem gerðu okkur kleift að “sjá í pakkann” eins og ýmsir létu í verði vaka að ættu sér stað, voru í reynd engar samningaviðræður því allt lá ljóst fyrir sem var að finna í pakkanum. Spurningin var bara að aðlaga íslenska stjórnskipan og íslenskt samfélag að regluverki Evrópusambandsins þar sem á skorti. Þess vegna hefði verið miklu heiðarlegra að spyrja hreint út frá upphafi hvort Íslendingar vildu fallast á að innlima landið í Evrópusambandið. Innlimun og aðlögun

Þar væri aftur rétt hugtak notað því Evrópusambandið þróast jafnt og þétt í átt að heildstæðu sambandsríki þar sem aðildarríkin glata smám saman sérstöðu sinni og sérréttindum. Og þar kemur aftur að aðhaldinu. Áköfustu aðlögunarsinnar innan ríkisstjórnarinnar eru án efa ráðherrar Viðreisnar. Ekki er að undra að ráðherrar úr þeim flokki skuli eiga auðveldast með að munda undirskriftapennann sem skuldbindur okkur til aðlögunar. Þannig undirritaði Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar og utanríkisráðherra, samkomulag í maí síðastliðnum um að Ísland skuli samsama sig utanríkisstefnu Evrópusambandsins og taka þátt í hvers kyns refsi- og þvingunaraðgerðum sem sambandið ákveði að grípa til. Þetta er stór ákvörðun ekki síst eins og málum er nú komið í heiminum og svo sannarlega í átt til aðlögunar.

Eftirgjöf í makríl Evrópusambandstengd

Atvinnuvegaráðherrann, Hanna Katrín Friðriksson, undirritaði síðan í júlí samkomulag sem sneri að stjórn fiskveiða sem tvímælalaust gengur í þessa átt einnig. Þá segja kunnáttumenn um sjávarútveg augljóst vera að eftirgjöf ríkisstjórnarinnar í nýgerðu samkomulagi um makrílveiðar beri þess rækan vott að verið sé að búa í haginn fyrir innlimum Íslands í ESB. Allt þetta þarf að ræða. Bæði til þess að fá fram allar upplýsingar svo fram geti farið viti borin lýðræðisleg umræða og síðan til þess að forða okkur frá því að ríkisstjórn, sem sést ekki fyrir í ákafa sínum, leiði okkur út í ógöngur og veiki stöðu þjóðarinnar til frambúðar á alþjóðavettvangi.

Fundurinn á KEA á laugardag

Klukkan 14 verður efnt til fundar á hótel KEA á Akureyri með það fyrir augum að varpa ljósi á þróun Evrópusambandsins sem greinilega er í átt frá samvinnu ríkja - eins og upphaflega var byggt á - og þess í stað tekin stefna á miðstýrt stórríki. Verst er að allt gerist þetta án þess að opin heiðarleg umræða fari fram. Annað veifið verður bakslag en valdakjarni ESB bíður það bakslag þá af sér og heldur síðan áfram.

Fuglalíf og stjórnmálalíf

Einhverju sinni hlýddi ég á Ralph Nader hinn aldna og gamalreynda bandaríska neytendafrömuð halda erindi. Hann var spurður hver væri framtíðarsýn hans eða óskaland, að öll þjóðin yrði eins og Ralph Nader? Nei, ekki er það svo svaraði kempan gamla. En í Bandaríkjunum, hélt hann áfram, eru þrjár milljónir fuglaskoðara sem fylgjast náið með fuglalífi í landinu. Við þurfum ekki minni fjölda til þess að fylgjast með hverju fram fer í stjórnmálalífinu. Það þarfnast nefnilega aðhalds.

Ábyrgðin er okkar allra!

Á Íslandi er ekki ofsögum sagt að slíks aðhalds sé þörf í ríkari mæli en við nú þekkjum. Annars fer illa fyrir okkur sem þjóð. Þess vegna má enn endurskoða titilinn hér að ofan og snúa honum að okkur sjálfum: Hjálpumst að svo forðast megi slysin. Það gerist hins vegar ekki með andvaraleysi. Ábyrgðin er okkar allra.

Þar er kominn titillinn!

Nýjast