Minnivarði um síðutogara, sjómenn og útgerð verður afhjúpað á sjómannadaginn, 7. Júní næstkomandi. Það verður sett upp austan við strandstíginn við Drottningarbraut. Minnismerkið er smíðað að frumkvæði áhugahóps um síðutogaraútgerð en verður í eigu Sjómannafélags Eyjafjarðar. Verkið stendur á hringlaga fleti sem er 7 metrar í þvermál.
Unnið er að smíði minnismerkisins í Slippnum á Akureyri og fóru nokkrir af forsvarsmönnum verkefnisins, gamlir eyfiskir sjómenn í heimsókn í Slippnum á dögunum og fylgdust með framvindu verksins. „Þetta var hjartnæm stund þegar við litum á stöðuna á verkinu og það er óhætt að segja að það sem fyrir augu bar vakti mikla hrifningu hjá okkur öllum,“ segir Sigfús Ólafur Helgason einn þeirra sem eru í forsvari fyrir verkefninu. „Verkið er á áætlun og ég fullyrði að það verður glæsilegt þegar við afhjúpum það á sjálfan sjómannadaginn.“

Smíði minnismerkis miðar vel.
Sjómannafélagið á minnismerkið
Skrifað hefur verið undir samning milli Akureyrarbæjar og Sjómannafélags Eyjafjarðar um minnismerkið. Sjómannafélagið ber kostnað við uppsetningu þess og viðhald auk þess að bera ábyrgð á öryggi á svæðinu við uppsetningu þess. Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbær annast grófa jöfnun undirlags fyrir verkið, kostnað við útfærslu og staðsetningu og leggur til rafmagnstengingu að því. Áætlaður kostnaður vegna þessara verkþátta er um hálf milljón króna.
Sigfús segir að staðsetningu minnisvarðans hafa örlítið verið hnikað til, það fært sunnar en áður var áætlað og nær Höphner svæðinu. „Það er okkar mat að minnisvarðinn verði á fallegum stað á uppfyllingunni neðan við Höephner og aðkoman verður mjög aðgengileg fyrir vikið.“
Söguskilti, bekkir og kertaljósakross
Samhliða smíði minnisvarðans er verið að vinna að prentun og uppsetningu söguskiltis sem verður á svæðinu. Þá er unnið að frágangi á þremur setbekkjum sem verða við minnisvarðann en einnig verður þar kertaljósakross sem einnig er verið að vinna að. Minnisvarðinn verður lýstur upp og telur Sigfús að tilkomumikið verði að horfa á hann þegar rökkva tekur.
„Það er trú mín,“ segir hann, „að þessi fallegi minnisvarði eigi eftir að laða að fjölda manna og verði í komandi framtíð samverustaður sjómanna og aðstandenda þeirra þegar minnast skal einhvers sem tengis sögu sjómanna.“
Hann segir alþekkt, bæði hér á landi og erlendis að virðing og væntumþykja tengist minnismerkjum af þessu tagi. Að þeim þykir fólki gott að koma og eiga notalega stund og hugsa til þeirra sem þeim voru kærir. „Við erum stoltir að hafa staðið fyrir þessu verkefni og hlökkum til sjómannadagsins þegar við afhjúpum þetta fallega minnismerki.“