Gistirými eykst á Akureyri

Gistirými hefur aukist verulega á Akureyri.
Gistirými hefur aukist verulega á Akureyri.

Akureyri, höfuðstaður Norðurlands, gengur nú í gegnum mikla breytingu hvað varðar framboð á gistingu. Stóru hótelin, Berjaya Iceland Hotels og Hótel Kea hafa verið burðarásar í þessum rekstri árum saman og eru í fullum rekstri.

Á síðustu misserum hefur Akureyri smám saman verið að festa í sessi sem heilsársáfangastaður. Skortur á gistirýmum stóð öfugri ferðaþjónustu lengi fyrir þrifum. Undanfarið hefur heilmikil breyting orðið þar á og ýmislegt í farvatninu, unnið hefur verið að umfangsmikilli uppbyggingu nýrra hótela og eða stækkun þeirra sem fyrir voru.

Fallegasta nýbyggingin

Hótel Akureyri sem stendur við Hafnarstræti hefur sem dæmi stækkað umtalsvert á liðnum árum. Ný viðbygging við hótelið var nýverið valin fallegasta nýbygging ársins 2025. Með þessari stækkun fór herbergjafjöldi hótelsins í um 140, sem eykur verulega getu bæjarins til að taka á móti stærri hópum.

Hótelkeðja haslar sér völl

Annað stórt skref í þróun ferðaþjónustu á svæðinu er koma Skáld Hótels Akureyri, sem verður hluti af Curio Collection by Hilton. Áætluð opnun þess er í maí 2026 og mun það bjóða upp á um 85 herbergi. Þetta markar tímamót þar sem um er að ræða fyrsta hótelið á landsbyggðinni sem tengist alþjóðlegri hótelkeðju af þessari stærðargráðu. Kapp er lagt á að endurnýja hluta Hafnarstrætis á þeim slóðum sem þessi hótel standa við og gera að fallegri vistgötu.

Víða eru uppi áform um að auka við gistirými . Þannig er gistiheimilið við Stórholt 1 í startholum að hefja byggingu tveggja húsa á lóð sinni auk þjónustuhús en við það eykst gistirými talsvert hjá Stórholti. Sæluhús við Búðartröð óska einnig eftir að bæta við sitt gistirými og byggja á sínu svæði upp ný hús undir gistingu sem yrði til þess að þar yrðu 300 gistirými í boði.

Bætist við í nágrannabyggðum

Tvö stór verkefni við hótelbyggingar eru í gangi á nágrenni Akureyrar. Við Skógarböðin er unnið að byggingu 120 herbergja hótels sem áætlað er að opni árið 2027. Sú fjárfesting undirstrikar mikilvægi baðmenningar fyrir Norðurland allt.. Skammt frá Akureyri, á Grenivík, rís svo Höfði Lodge, glæsilegt lúxushótel með 42 herbergjum sem stefnir á opnun sumarið 2026. Þar verður áhersla lögð á útivist og þyrluskíðun, sem höfðar til efnaðri ferðamanna sem leita að einstakri upplifun.

Beint flug breytir leiknum

Að baki þessum vexti liggja veigamiklar breytingar á aðgengi, beint millilandaflug til Akureyrarflugvallar hefur opnað gátt fyrir ferðamenn frá Bretlandi og Evrópu, sem áður þurftu að fara um Keflavík. Þetta hefur hleypt lífi í vetrarferðamennsku á Norðurlandi og gert hótelrekstur sjálfbærari yfir allt árið. Vissulega eru enn árstíðasveiflur í ferðaþjónustunni, en samkvæmt gögnum frá Hagstofunni hefur gistinóttum fjölgað jafnt og þétt, og er eftirspurnin á sumrin er mikil.

Beint millilandaflug til Akureyrarflugvallar hefur opnað gátt fyrir ferðamenn frá Bretlandi og Evrópu

 

Nýjast