Ríflega 100 þúsund krónur söfnuðust fyrir börn á Haítí

Á Degi leikskólans, sem haldinn var 6. febrúar sl., opnuðu börnin í leikskólanum Álfaborg á Svalbarðsströnd listsýningu í Ráðhúsi Svalbarðsstrandar. Viku síðar fluttist sýningin í matsal Kjarnafæðis og var þar í viku. Sýninguna, sem var sölusýning á verkum barnanna, sóttu á annað hundrað manns en jafnframt var tekið á móti frjálsum framlögum á henni.  

Tilefnið var að vekja athygli á Degi leiksskólans en jafnframt að láta gott af sér leiða og safna fé fyrir börn sem urðu illa úti í jarðskjálftunum á Haítí. Síðastliðinn föstudag komu svo Jón G. Knutsen og Hafsteinn Jakobsson frá RKÍ í leikskólann til að taka á móti söfnunarfénu. Alls söfnuðust 112.832 krónur en inni í þeirri upphæð voru 100 krónur á hvern íbúa sveitarfélagsins, sem var framlag hreppsins. Það má því með sanni segja að góðverkavikan í leikskólanum í síðustu viku hafi endað á stóru góðverki. Börn og starfsfólk vilja þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn við þetta verkefni og sérstaklega þeim sem lögðu peninga í söfnunina.

Nýjast