Reynslusaga matarfíkils er yfirskriftin á myndlistarsýningu Birgis Sigurðssonar sem opnar í Flóru í Listagilinu á Akureyri laugardaginn 16. júní kl. 14. Sýningin er vídeo-innsetning sem gefur áhorfandanum innsýn inn í heim matarfíkils. Gjörningurinn Reglugerð um ofát verður fluttur kl. 14.
Efniviður sýningarinnar er upplifun mín og reynsla af matarfíkn segir Birgir. Sýningin er þakklæti til matarfíknarinnar sem hefur skipt mig miklu máli í mínu lífi. Mér finnst engin þörf á að tala um þyngd, þyngdartap eða annað sem snýr að þyngd líkamans. Ég er að fjalla um næturátið mitt og hvernig það hefur birst mér allt mitt líf: Ég vakna til að borða og get ekki hætt. Birgir Sigurðsson er menntaður rafvirki og er að mestu sjálfmenntaður í myndlist. Hann hefur á undaförnum 14 árum haldið fjölmargar myndlistarsýningar og rekur nú 002 Gallerí á heimili sínu í Hafnarfirði. Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru og stendur til laugardagsins 7. Júlí 2012. Einnig verður boðið upp á listamannsspjall með Birgi Sigurðssyni, fimmtudaginn 5. júlí kl. 20.00.