Reynslunni ríkari

Ertu viss? Hefurðu tíma? Er þetta ekki vanþakklátt?

Á þessum nótum voru spurningarnar sem ég fékk frá fólkinu í kringum mig þegar ég tilkynnti að ég ætlaði að taka að mér annað sætið á L-listanum, bæjarlista Akureyrar, í kosningunum 31. maí.

Já, ég er alveg viss.

Ég fékk snemma áhuga á bæjarmálunum og man eftir mér mjög ungri við matarborðið heima að rökræða málefni líðandi stundar við pabba. En það dugði mér ekki að ræða bara málin við hann, ég vildi hafa áhrif og taka þátt og fór því í framboð fyrir L-listann árið 2002, þá ekki orðin tvítug.

Síðan eru liðin tólf ár og ég er reynslunni ríkari. Undanfarin fjögur ár hef ég verið mjög virk í starfi meirihluta bæjarstjórnar og lært heilmargt. Enn á ég margt ólært og finnst spennandi áskorun að halda áfram og axla meiri ábyrgð.

Fyrir tveimur árum eignaðist ég mitt fyrsta barn. Því fylgdu miklar breytingar og ég upplifði nýjar hliðar á bæjarkerfinu. Ég hef verið ánægð með þá þjónustu sem ég hef notið en eftir því sem ég hef kynnt mér málin betur hef ég komist að raun um að kostnaður barnmargra fjölskyldna vegna skólakerfisins getur verið þungur baggi. Ég vil að bærinn komi betur til móts við þá sem hafa úr litlu að spila og að sett verði þak á kostnað vegna skólamála hjá þeim sem svo er ástatt um.

Já, ég hef tíma.

Það er spennandi að taka þátt í að móta samfélagið sitt. Auðvitað tekur tíma að koma sér inn í mál og fundir geta verið margir og langir. En eins og á kjörtímabilinu sem senn er á enda ætlar L-listinn, bæjarlisti Akureyrar, að dreifa verkum og ábyrgð á milli fólks á nýju kjörtímabili. Við erum 22 á framboðslistanum; öll full af orku og áhuga og með breiða þekkingu á málefnum bæjarins og þörfum bæjarbúa. Mesta ábyrgðin hvílir þó á herðum okkar sem sitjum í efstu sætunum og ég mun ekki skorast undan heldur skipuleggja tímann minn vel.

Það liggur í eðli stjórnmálanna að ekki eru allir alltaf sammála. Það er líka það fallega við lýðræðið að fólki leyfist að vera ósammála. Að sitja í bæjarstjórn eða taka þátt í stjórnmálum að öðru leyti er ekki sérstaklega þakklátt starf og á ekkert endilega að vera það. Við sem höfum gefið okkur að þessu gerum það af hugsjónum. Að baki býr löngun til að sjá draumsýn verða að veruleika og sannfæring um þú getir bætt hagi fólks.

Stundum er sagt að stjórnmál séu samkeppni um hugmyndir. Sjálfri finnst mér sama hvaðan góðar hugmyndir koma og lít á starfið í bæjarstjórn sem samstarf ellefu einstaklinga fremur en að þar sitji fulltrúar ólíkra flokka sem skipast í meiri- og minnihluta. Akureyri er frábær, en lengi má gott bæta og saman gerum við Akureyri að enn betri bæ ef við gerum það af ástríðu. 

 Silja Dögg Baldursdóttir

Silja Dögg Baldursdóttir markaðsfulltrúi skipar annað sæti framboðslista L-listans, bæjarlista Akureyrar

 

 

 

 

 

 

Nýjast