Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í miðborginni

Á fundi bæjarráðs Akureyrarbæjar í morgun var lögð fram tillaga að bókun um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar sem síðan var samþykkt samhljóða. Bókunin er svohljóðandi:  

"Vegna umræðu um flutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni vill bæjarráð Akureyrar minna á þá ábyrgð og skyldur sem höfuðborg landsins ber gagnvart landsmönnum öllum. Að mati bæjarráðs eru greiðar flugsamgöngur landsbyggðarinnar til Reykjavíkur forsenda þess að borgin geti gegnt hlutverki sínu sem höfuðborg landsins alls. Í höfuðborginni eru höfuðstöðvar stjórnsýslu Íslands auk fjölda opinberra viðskipta-, mennta-, menningar- og heilbrigðisstofnana sem eiga þar einnig sínar höfuðstöðvar. Bæjarráð hvetur borgarstjórn Reykjavíkur til að hafa framangreind atriði í huga við umfjöllun sína um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallarins.
Bæjarráð Akureyrar ítrekar fyrri ályktanir vegna þessa máls og bendir á að ef innanlandsflugvöllur verði fluttur úr miðborginni er verið að takmarka aðgengi landsbyggðarfólks að miðstöð stjórnsýslu, þjónustu, viðskipta og ekki síst Landspítala háskólasjúkrahúsi með því að lengja ferðatíma til borgarinnar."

Nýjast