29. nóvember, 2007 - 14:15
Á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun var rætt um Reykjavíkurflugvöll og byggingu samgöngumiðstöðvar í tengslum við starfsemi hans. Bæjarráð leggur áherslu á að greiðar flugsamgöngur landsbyggðarinnar við Reykjavík eru forsenda þess að borgin geti gegnt hlutverki sínu sem höfuðborg landsins alls. Flugvöllur í grennd við miðbæ Reykjavíkur og góð aðstaða fyrir farþega á leið til og frá höfuðborginni þurfa nauðsynlega að vera fyrir hendi í þessum tilgangi. Bæjarráð lýsir þess vegna stuðningi við hugmyndir um uppbyggingu fyrirhugaðrar samgöngumiðstöðvar þannig að hægt verði að koma á samkeppni í innanlandsflugi. Um leið eru ítrekaðar fyrri bókanir ráðsins og bæjarstjórnar Akureyrar um nauðsyn þess að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á sama stað.
Þá mættu Sigurður Hermannsson umdæmisstjóri, Hermann Hermannsson deildarstjóri flugvalladeildar og Bergur Steingrímsson verkfræðingur á fund bæjarráðs og kynntu væntanlega framkvæmd við lengingu Akureyrarflugvallar. Bæjarráð fagnar því að framkvæmdir við verkið eru nú í sjónmáli.