Bændur í Eyjafirði, sem og á öðrum stöðum á landinu, eru að fara að huga að því að smala fé sínu af fjalli og framundan eru því réttarstörf. Í Eyjafirði verður réttað á fimmtán stöðum og byrjað í Gljúfurárrétt í Grýtubakkahreppi, Hraungerðisrétt í Eyjafjarðarsveit og Þórustaðarétt í Hörgárbyggð, laugardaginn 8. september nk. Daginn eftir, sunnudaginn 9. september, verður réttað í Möðruvallarétt og Þverárrétt í Eyjafjarðarsveit og Tungurétt í Dalvíkurbyggð. Réttað verður í Staðarbakkarétt í Hörgárbyggð föstudaginn 14. september og réttað verður á sex stöðum laugardaginn 15. september. Í Geldingsárrétt og Dálksstaðarétt á Svalbarðsströnd, Glerárrétt á Akureyri, Þorvaldsdalsrétt í Hörgárbyggð, Reistarárrétt í Arnarneshreppi og Árskógsrétt í Dalvíkurbyggð. Sunnudaginn 16. september verður réttað í Reykjarétt í Ólafsfirði og daginn eftir, mánudaginn 17. september, í Þverárrétt Öxnadal í Hörgárbyggð.