Rekstur Hafnasamlags Norðurlands gekk vel á liðnu ári, betur gekk en áætlanir gerðu ráð fyrir. Afkoma fyrirtækisins var því vel viðunandi, að sögn Harðar Blöndal framkvæmdastjóra þess, en aðalfundur samlagsins var haldinn í vikunni. Heildartekjur námu tæplega 292 milljónum króna sem er 6,4 milljónum meira en var árið á undan. Rekstrargjöld voru ríflega 173 milljonir, afskriftir rúmlega 42 milljónir og fjármagnsgjöld um 23 milljónir. Hagnaður upp á rúmlega 53 milljónir króna varð af rekstri Hafnasamlagsins á liðnu ári.
Alls voru skráðar 461 skipakoma á árinu 2011, það er 70 skipum færra en árið á undan. Á liðnu ári komu 55 skemmtiferðaskip til Akureyrar með um 50 þúsund farþega, en hreinar tekjur Hafnasamlagsins af komum skemmtiferðaskipa nam 73 milljónum króna á síðasta ári. Vöruflutningar um höfnina voru tæp 100 þúsund tonn. Landaður afli í höfnum samlagsins í fyrra var um 18.300 tonn en árið áður var aflinn um 16.600 tonn.
Hert hefur verið á öllu regluverki er snýr að hafnastarfsemi og eru eftirlitsstofnunum sífellt veittar auknar heimildir til a krefjast endurgjaldslausrar vinnu af hafnastarfsmönnum. Hörður kom inn á þetta mál á aðalfundinum. Augljósasta dæmið eru lög og reglugerð um vigtun sjávarafla, þar sem á vigtarmenn hafnanna eru lagðar bæði skyldur og ábyrgð langt út fyrir öll skynsamleg mörk, segir Hörður.
Hann nefndi sem dæmi að í fyrirliggjandi frumvarpi um stjórn fiskveiða á að veita eftirlitsaðila heimild til að beita stjórnvaldssektum, óháð því hvort lögbrot sé framið af ásetningi eða gáleysi. Á hafnastarfsmann geta sektirnar numið frá 50 þúsund krónum upp í 50 milljónir króna. Hörður nefndi að stjórn Hafnasamlagsins hefði ályktað um fyrirliggjandi frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og frumvarp til laga um veiðigjald, þar sem þess er farið á leit við stjórnvöld að áhrif lagasetningarinnar verði könnuð af hlutlausum aðila, bæði hvað varðar úrgerðina sjálfa og eins áhrifin á einstök byggðalög.