Handboltakappinn Ragnar Snær Njálsson hefur gert samning út veturinn við þýska 3. deildar liðið HSC Bad Neustadt. Ragnar dvaldi hjá félaginu í nokkra daga í upphafi árs, þar sem hann skoðaði aðstæður og æfði með liðinu og í kjölfarið bauð félagið honum samning.
„Mér líst mjög vel á þetta. Það er mikill metnaður hjá þessu félagi og þetta er bara skref númer tvö upp á við hjá mér,” sagði Ragnar í samtali við Vikudag í kvöld, en hann lék síðast með A.O. Dimou Thermaikou í Grikklandi.
Ragnar heldur utan á fimmtudaginn kemur og leikur að öllum líkindum sinn fyrsta leik með félaginu strax á laugardaginn, þann 30. janúar næstkomandi.