Ræðir netöryggi og nýsköpun á hringferð um landið

Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, mun fara í hringferð um landið í samvinnu við SAFT dagana 21. - 28. febrúar og ræða netöryggi og nýsköpun á opnum fundum í skólum fyrir börn, unglinga og foreldra. Megintilgangur ferðarinnar er að hvetja til ábyrgrar hegðunar í rafrænum samskiptum og vekja fólk til umhugsunar um hvernig börn og fullorðnir geti varast ýmsar þær hættur sem fylgt geta netnotkun.  

Jafnframt mun Halldór nýta tækifærið til að ræða nýsköpun í atvinnulífi og byggðamál og hvernig framfarir í tækniþróun geti nýst við uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Á hringferðinni mun Halldór kynna svokölluð öryggisboðorð SAFT fyrir börn og foreldra, en sé þeim fylgt eykst öryggi tölvunotenda á heimilinu til mikilla muna. SAFT - samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak á vegum samtakanna Heimilis og skóla um örugga tækninotkun barna og unglinga.

Fyrstu áfangastaðir Halldórs verða Höfn í Hornafirði mánudaginn 22. febrúar, Seyðisfjörður þriðjudaginn 23. febrúar, Grenivík miðvikudaginn 24. febrúar og svo heldur förin áfram vestur. Erindi hans verða haldin í grunnskólum viðkomandi bæjarfélaga og eru opnir öllum sem áhuga hafa. Ítarlegri upplýsingar um stað og stund má finna á vefnum www.saft.is.

Halldór nýtir frítíma sinn í hringferðina en hann hefur lengi haft áhuga á þessum málefnum og flutti til að mynda erindi á málþingi SAFT sem haldið var á alþjóðlega netöryggisdeginum 9. febrúar sl.  „Það er mín tilfinning að alltof fáir geri sér grein fyrir því hvað felst í ábyrgri netnotkun. Eldri kynslóðir þekkja ekki hvernig það er að alast upp á tímum net- og tölvutækni og eiga því erfitt með að miðla mikilvægri þekkingu til þeirra sem yngri eru. Unga kynslóðin hefur hins vegar góða tölvukunnáttu en hefur enn ekki náð að þróa með sér gagnrýna hugsun eldri kynslóðarinnar. Þess vegna er mikilvægt að við tölum saman um þessa hluti, ræðum vandamálin, leitum lausna og aukum þannig öryggi og vellíðan okkar allra í umgengni við Internetið og tölvutæknina almennt. Ég vona að með mínum samræðum við fólk á hringferðinni takist mér að opna augu fólks fyrir öryggi á netinu og hjálpa því að leita uppbyggilegra leiða til að tryggja netöryggi," segir Halldór.

Hvað varðar nýsköpun og byggðamál segir Halldór að hann hafi lengi haft áhuga á þessu málefni og hafi sterkar skoðanir á því hvernig tækninýjungar geti orðið mikilvægur þáttur í atvinnuuppbyggingu í hinum dreifðu byggðum. „Mig langar að ræða við fólk á landsbyggðinni um þessa hluti og heyra skoðanir þess á atvinnuuppbyggingu. Ég er jafnframt með ýmsar hugmyndir í farteskinu sem ég vona að einhverjir geti nýtt sér í leit að nýjum tækifærum," segir Halldór.

Halldór mun halda úti bloggi frá hringferð sinni þar sem birtar verða frásagnir, myndir og myndskeið. Bloggið má finna á slóðinni hringurinn.spaces.live.com. Öryggisboðorðin og nánari upplýsingar um starfsemi SAFT má finna á vefnum saft.is og á Facebook-síðu SAFT. Twitter-merki hringferðarinnar er #hringurinn. Halldór mun jafnframt koma færandi hendi til þeirra skóla sem hann heimsækir og skilja eftir veglegan pakka í boði Nýherja, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast