Ráðist verði í stækkun flugstöðvarinnar sem fyrst

Bæjarráð Akureyrar tekur undir áskorun Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi um að hið fyrsta verði ráðist í framkvæmdir við stækkun flugstöðvar og flughlaðs á Akureyrarflugvelli. Millilandaflug á heilsársgrundvelli komi til með að skapa ferðaþjónustunni á Norður- og Austurlandi algjörlega nýjan rekstrargrundvöll, efla arðsemi, nýsköpun og þróun í ferðaþjónustu og muni hafa jákvæð áhrif á aðra atvinnustarfsemi á landsbyggðinni sérstaklega yfir vetrartímann.  

Málið var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs í morgun og í bókun ráðsins segir ennfremur: "Með lengingu flugbrautar var lagður grunnur að því að reglulegt millilandaflug gæti hafist en til þess að sú fjárfesting nýtist að fullu þarf að klára verkefnið, þ.e. að stækka flughlaðið og flugstöðvarbygginguna. Bæjarráð telur eðlilegt að framkvæmdin verði greidd af samgönguáætlun eins og fordæmi eru fyrir annarsstaðar á landinu og telur ekki rétt að leggja þann kostnað eingöngu á flugrekendur og þar með notendur mannvirkisins.
Bæjaryfirvöld eru tilbúin til samstarfs við stjórnvöld og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu í markaðssetningu og kynningarmálum og leggja áherslu á að í það verði ráðist sem fyrst."

Nýjast