Þessa stundina liggur nú á Pollinum stórt og glæsilegt skemmtiferðaskip að nafni Queen Elizabeth, en það er eitt frægasta skemmtiferðaskip heims. Skipið er með þeim stærri sem koma til Akureyrar í sumar að sögn Péturs Ólafssonar, skrifstofustjóra hjá Hafnasamlagi Norðurlands.
Stærsta skipið sem kemur til bæjarins er hins vegar Grand Princess sem er hvorki meira né minna en 108.806 brúttótonn. Til samanburðar má nefna að Queen Elizabeth er 70.327 brúttótonn. Skipið, sem heldur í burtu aftur síðdegis í dag, er smíðað árið 1969 og eru með því um 1700 farþegar.