Provincetown í USA vill vingast við Norðurþing

Strandbærinn Prowincetown, sem hefði getað heitið Herringtown,  fremst á Cape Cod.
Strandbærinn Prowincetown, sem hefði getað heitið Herringtown, fremst á Cape Cod.

Fram hefur komið áhugi frá smábænum  Provincetown í Massachusetts í Bandaríkjunum að gerast vinabær Húsavíkur og sveitarfélagsins Norðurþings. Málið var rætt á síðasta fundi tómstunda- og æskulýðsnefndar Norðurþings  sem fer með vinabæjarsamskipti sveitarfélagsins, og þar kom fram ánægja með  þennan áhuga frá Provincetown. Nefndin fól tómstunda- og æskulýðsfulltrúa, Kjartani Páli Þórarinssyni,  að vera í samskiptum við fulltrúa Provincetown og kynna nefndinni framgang málsins síðar.

Kjartan Páll sagði í samtali við Skarp að hann hefði verið í sambandi við starfsmann bandaríska sendiráðsins í Reykjavík, sem raunar hefði haft forgöngu um að leiða þessa bæi saman til viðræðna. Væntanlega hafi Provincetownbúar óskað eftir að komast í samband við bæ af svipuðum toga á Íslandi og vissulega væru mikil líkindi með þessum stöðum. Sambærilegur íbúafjöldi og  ýmis einkenni sameiginleg, hvortveggja eru sjávarpláss sem byggja m.a. á sjávarútvegi, hvalaskoðun, túrisma og strandmenningu. Provincetown er á Austurströnd USA á svæði þar sem margir íbúa eiga ættir að rekja til Norðurlandanna.

Þarna hafa frá fornu farið verið gjöful fiskimið og margvísleg veiði verið stunduð. Til marks um það má nefna að árið 1727 var kosið um nafn á bæinn, íbúarnir völdu   nafnið Herringtown, sem sé bókstaflega Síldarbær, en yfirvöld höfnuðu því og ákváðu að það yrði Provincetown.

“Við eigum reyndar þegar vinabæ í Bandaríkjunum, Eastport í Maine, en það samband hófst í tengslum við timburflutninga að vestan og fyrirhugaða harðviðarframleiðslu á Húsavík. Eftir að hún lagðist af, hefur þetta vinabæjarsamband verið í skötulíki.” Segir Kjartann.

Hið sama má reyndar segja um samband Húsavíkur við Godhavn í Grænlandi sem hefur verið í mýflugumynd. Álaborg er fyrsti vinabær Húsavíkur og  hafa samskiptin þar verið nokkuð öflug frá upphafi til þessa dags. Og raunar í gegnum Álaborg við aðra vinabæi  á Norðurlöndum. “Þegar ég var á síðustu Álaborgarleikum í fyrrasumar, þá hittumm við einmitt fulltrúa Fuglafjarðar í Færeyjum, Karlskoga í Svíþjóð, Fredrikstad í Noregi og Riihimaki í Finnlandi.”

Sagði Kjartan Páll, sem var að safna saman helstu upplýsingum um Húsavík og Norðurþing, ásamt myndum, til að senda hinum vinalegu íbúum Provincetown. “Og svo kemur það bara í ljós hvað úr þessu verður.”

Þess má til gamans geta, að í könnum sem gerð var árið 2010, kom fram  að hvergi í gjörvöllum Bandaríkjunum er hærra hlutfall samkynhneigðra para en í Provincetown, eða 163,1 af hverjum 1000 pörum. JS

Nýjast