Pósturinn gefur út afmælisfrímerki tengd Akureyri

Í tilefni af 100 ára afmæli Lystigarðsins á Akureyri og 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar, gefur Pósturinn út tvö ný frímerki. Útgáfudagurinn er í dag, 3. maí, og því því tilefni afhenti Skúli Rúnar Árnason svæðistjóri Íslandspósts á Norðurlandi, fulltrúum Akureyrarbæjar fyrstadags umslög með frímerkjunum í húsnæði fyrirtækisins við Strandgötu í morgun. Á meðal viðstaddra voru Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, sem  á sæti í afmælisnefnd bæjarins, Björgvin Steindórsson forstöðumaður Lystigarðsins, Sigríður Stefánsdóttir framkvæmdastjóri afmælisnefndar, Tryggvi Gunnarsson formaður afmælisnefndar og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri. Í tilkynningu frá Póstinum segir: Akureyrarbær er fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins en í árslok 2011 bjuggu þar um 18.000 manns. Eyjarnar Grímsey og Hrísey eru innan vébanda sveitarfélagsins. Landnámabók greinir frá því að fyrsti landneminn á svæðinu var Helgi „magri“ Eyvindarson sem kom þangað á 9. öld. Árið 1778 var fyrsta íbúðarhúsið reist á staðnum og varanleg búseta hófst. Átta árum síðar fékk bærinn kaupstaðarréttindi ásamt fimm öðrum bæjum á Íslandi. Þetta var að undirlagi Danakonungs en hann vildi reyna að efla hag Íslands með því að hvetja til þéttbýlismyndunar þar en slíkt var þá nánast óþekkt á landinu. Akureyri missti kaupstaðarréttindin 1836 en fékk þau aftur 1862. Bændur í Eyjafirði bundust samtökum til að styrkja stöðu sína gagnvart dönskum kaupmönnum og stofnuðu Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri (KEA). Kaupfélagið átti mikinn þátt í vexti bæjarins og á vegum þess voru rekin mörg iðnfyrirtæki í bænum sem mörg sérhæfðu sig í úrvinnslu landbúnaðarafurða. Meiri umsvif í verslun og þjónustu, ferðaþjónustu, sjávarútvegi og Háskólinn á Akureyri hafa nú komið í stað iðnaðarins að miklu leyti. Akureyri er mjög blómlegt sveitarfélag á 150 ára afmælisárinu.

Oscar Bjarnason hannaði frímerkið. Ljósmyndina tók Árni Geirsson.

Lystigarðurinn á Akureyri  

Lystigarðurinn er rekinn af Akureyrarbæ sem grasagarður og skrúðgarður. Almenningsgarðurinn var opnaður formlega 1912 en grasagarðurinn 1957. Lystigarðsfélagið var stofnað 1909 og var Sigríður Sæmundsson fyrsti formaður þess. Margrethe Schiöth starfaði að vexti og viðgangi garðsins í rúmlega þrjátíu ár. Fegrunarfélag Akureyrar beitti sér fyrir kaupum á merkilegu og sérstæðu grasasafni Jóns Rögnvaldssonar, sem var brautryðjandi í ræktun íslenskra jurta. Nú eru tæplega 7000 erlendar tegundir í garðinum og meginþorri íslensku flórunnar. Rúmlega 100.000 manns koma í garðinn á hverju sumri og sífellt fleiri koma á öðrum árstímum. Hany Hadaya hannaði frímerkið.

 

 

Nýjast