Atvinnuveganefnd Alþingis hefur verið upplýst um grafalvarlega stöðu í rekstri PCC Bakka við Húsavík, þar sem stefnt gæti í rekstrarstöðvun undir lok sumars ef ekki tekst að snúa vörn í sókn.
Fyrir viku óskaði Njáll Trausti Friðbertsson eftir því að fulltrúar Norðurþings, PCC Bakka og Samtaka iðnaðarins kæmu fyrir nefndina til að kynna málið og veita innsýn í þá erfiðu stöðu sem komin er upp.
Í færslu á Facebook í dag segir Njáll Trausti,, Heimsmarkaðsverð er lágt, nú er svo komið að Kínverjar framleiða rétt um 85% af heimsframleiðslunni. Kína hefur tekið yfir sífellt stærri hlut á undanförnum árum. Þessi sama þróun hefur verið á framleiðslu annarra málma og einnig fágætra málma” segir Njáll Trausti og bætir við
,,Það er mikilvægt að íslensk stjórnvöld og þingið kynni sér vel þá alvarlegu stöðu sem nú er uppi. Það hefur komið fram í íslenskum fjölmiðlum að fjármálaráðuneytið hefur móttekið kæru frá PCC Bakka vegna innflutnings kísils frá Kína á undirboðskjörum til Íslands. Mikilvægt að þeirri rannsókn verði lokið sem allra fyrst", segir Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í fyrr nefndri færslu.