„Það eiga margir góðar minningar um þessa verslun,“ segir Helen Jónsdóttir en gamla góða búðin í Vaglaskógi var jöfnuð við jörðu nýverið. Allt var tekið nema hellan fékk að vera og væntir Helen þess að eitthvað verði gert á staðnum. „Vonandi verður settur upp fallegur áningarstaður þarna, með borðum og bekkjum og jafnvel skilti sem greinir frá sögu verslunarinnar.“
KSÞ á Svalbarðseyri hóf rekstur verslunar í Vaglaskógi fyrir 80 árum, árið 1945. Verslunin var rekin til ársins 1993. Síðar var önnur verslun rekin yfir sumarið inni í skóginum en henni hefur sömuleiðis verið lokað. Hægt er að kaupa veitingar í golfskálanum við Lundsvöll.
Það muna margir eftir þessu útliti
Helen átti í eina tíð heima skammt frá versluninni í Vaglaskógi og vann þar í 6 góð ár, „með óskaplega skemmtilegu fólki og þær minningar eru góðar,“ segir hún og bætir við að bíltúrar sem farnir voru í gamla daga skilji einnig eftir sig góðar minningar.
Eflaust vakna minningar hjá sumum
Þó nokkuð umsvif
„Það var hægt að kaupa allt í þessari verslun og íbúar í Fnjóskadal keyptu þar allt sem vantaði til heimilisins. Það var hægt að panta vörur og fá sendar heim, bara hringja í verslunina og við tókum saman og pósturinn fór með heim á bæina,“ rifjar Helen upp. Úrvalið var talsvert og umsvifin þó nokkur þegar verslunin var upp á sitt besta.
Helen og Vilhjálmur Valtýsson maður hennar reka fyrirtækið Jarðverk sem sá um niðurrifið og gekk verkið vel. Hún segir að húsið hafi verið mjög illa farið og í raun hættulegt. „Annað var ekki hægt en rífa húsið, og þó fyrr hefði verið,“ segir hún.