„Þetta er ein hraðasta íþrótt í heimi. Ég hef lýst henni á þann veg að leikmaður er í 100 metra hlaupi á fullum hraða, gefi allt í sprettinn, með 10-15 kg aukalega á sér ásamt því að tveir menn hangi á honum. Það þarf að huga að kylfu og hvar pökkurinn er auk þess sem farið er um á örmjóu blaði. Íshokkí reynir mjög mikið á leikmenn, þeir þurfa að vera í góðu formi, sterkir og hafa gott jafnvægi,“ segir Jónína Margrét Guðbjartsdóttir. Hún var ein af þeim konum sem tók þátt í að stofna kvennalið Skautafélags Akureyrar fyrir 25 árum og er enn að, spilar með og þjálfar að auki U16 kvenna hjá félaginu.
Jónína er frá Blönduósi og hefur frá unga aldri stundað alls konar íþróttir. „Bara allt það sem var í boði í mínum heimabæ, þegar einhver kom og bauð upp á t.d. sundæfingar fór ég að æfa sund,“ segir hún, en var hún aðallega í frjálsum íþróttum og fótbolta. Prófaði líka körfubolta og handbolta svo eitthvað sé nefnt.
Jónína kom með íþróttaáhugann í farteskinu til að stunda nám við Menntaskólann á Akureyri í kringum aldamótin. Hópur stúlkna þar langaði að æfa íshokkí en íþróttin var á þeim tíma einungis í boði fyrir karla. Þær létu það ekki aftra sér og unnu að þeirri hugmynd að stofna kvennalið innan SA. „Þær vissu af mínum íþróttaáhuga og spurðu hvort ég vildi vera með og að sjálfsögðu sló ég til,“ segir Jónína sem aldrei hafði leikið íshokkí áður. „Mér fannst gaman að horfa á íshokkí í sjónvarpinu þegar það var í boði, þetta er hraður leikur og mikil spenna.“
Hugmyndin fékk góðan hljómgrunn
Stúlkurnar fengu leyfi skólameistara, Tryggva Gíslasonar til að kynna hugmyndina á sviði í Kvosinni og fékk hún góðan hljómgrunn. Nægilega margar hoppuðu á vagninn þannig að hægt væri að stofna lið og hefja æfingar. Stelpurnar fengu einn ístíma í viku, fljótlega eftir hádegi á föstudögum og rétt náðu inn í skautahöll eftir skóla. „Við fengum leigða skauta en áttum ekki búninga. Þegar við spiluðum fyrstu tvo leikina okkar þarna um vorið lánuðu strákarnir okkur búninga af sér og það var svolítið skrautlegt. Sumir voru allt að því tveggja metra menn en stúlkurnar sumar hverjar smávaxnar þannig að það var svolítið púsl að koma þessu saman,“ rifjar Jónína upp.
Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir sem leikur með Birninum en var áður hjá SA, Jónína Margrét, Jóhanna Sigurbjörg Ólafsdóttir, Brynja Vignisdóttir og Sólveig Gærdbo Smáradóttir.
Sömu konur fyrir um það bil tveimur áratugum, Jóhanna og Sólveig halda á bikurum, Brynja efst til vinstri, Jónína í miðjunni og Steinunn til hægri.
Þessir fyrstu tveir leikir eru henni minnistæðir en þær spiluðu þá á Akureyri á móti liði Bjarnarins frá Reykjavík. Þá höfðu stúlkurnar æft í tvo mánuði, einu sinni í viku en stúlkurnar úr Reykjavík höfðu margar hverjar æft í tvö ár. Flestir bjuggust við rótbursti sunnanstúlkna en norðanstúlkur börðust hart. Vissulega töpuðu Akureyrarstelpur leikjunum en alls ekki með þeim mun sem við var búist. „Við stóðum furðu vel í þeim, það má segja að allir hafi verið frekar hissa,“ segir Jónína sem bauðst til að verja markið í leikjunum.
Strax mikill áhugi
Kvennaliðið fékk strax byr undir báða vængi haustið sama ár, áhugi var mikill og leið ekki að löngu þar til hægt var að setja upp tvö lið, A og B. Strákar sem æft höfðu íshokkí með karlaliði SA og voru á svipuðum aldri og þær buðust til að þjálfa og gekk það ágætlega. Þá fengu þær sér eigin búninga og leiðin lá upp á við. „Kvennaliðinu hefur gengið ótrúlega vel frá upphafi og fjölmargir Íslandsmeistaratitlar að baki, okkar konur hafa líka verið áberandi í landsliðum Íslands í áraraðir og getið sér þar gott orð,“ segir Jónína.
Ungt lið en öflugt
Uppistaða í liðinu nú eru ungar stúlkur, á aldrinum 15 ára upp að 19 ára aldri, örfáar á aldursbilinu 20 til 30 ára og 4 eldri en þrítugar spili enn með liðinu og er Jónína ein þeirra, 44 ára gömul. Dóttir hennar Freyja Rán sem verður 16 ára í lok þessa árs leikur einnig með liðinu og segir Jónína það hafa verið sérlega skemmtilegt að spila leiki með henni í vetur. „Við erum með ungt lið, það er þannig hjá okkur að eftir stúdentspróf fara margar til náms í Reykjavík eða erlendis og ganga til liðs við önnur félög. Það er bara að vona að einhverjar skili sér til baka aftur og spili aftur með SA.“
Mæðgurnar Freyja Rán Sigurjónsdóttir og Jónína Margrét Guðbjartsdóttir
Vaxið og dafnað um árin
Jónína segir að kvennalið SA hafi vaxið og dafnað jafnt og þétt um árin. Alltaf hafi verið vel hugað að öllu utanumhaldi, foreldrafélagið er öflugt, stjórnin góð sem og þjálfarar og íþróttastjóri. „Andinn í félaginu hefur alla tíð verið góður. Allir leggjast á eitt um að gera umgjörðina sem besta og það er ávísun á góðan árangur.“
Íshokkí er vinsæl íþróttagrein á Akureyri. Staðan er sú segir Jónína að biðlisti hafi myndast meðal áhugasamra sem vilja spreyta sig en einungis er hægt að hafa 60 iðkendur í yngstu flokkunum. Aðeins eitt svell er í bænum og því erfitt að finna tíma í dagskránni til að bjóða upp á nægan ístíma fyrir alla flokka og alla iðkendur. Það er því takmörk fyrir því hversu mörgum hægt er að taka á móti.
Bæði í meistaraflokki karla og kvenna eru fleiri iðkendur en komast að í liðunum, hámarkið þar eru 20 leikmenn ásamt tveimur markmönnum en mun fleiri eru að æfa með hvorum flokki fyrir sig. „Í fyrsta sinni í sögu félagsins hafa meistaraflokkarnir sprengt þetta hámark sem þýðir að leikmenn þurfa að hafa fyrir því að vera með í liðinu og sumir þurfa að þola það að horfa á leikina úr stúkunni,“ segir Jónína.