Orkey fyrst á Íslandi með sjálfbærni- vottaða framleiðslu á lífeldsneyti

Juan Lopez, úttektaraðili ISCC frá Þýskalandi , Ragna Björg Ársælsdóttir - rekstrarstjóri Gefnar - m…
Juan Lopez, úttektaraðili ISCC frá Þýskalandi , Ragna Björg Ársælsdóttir - rekstrarstjóri Gefnar - móðurfélags Orkeyjar og Ragnar Heiðar Guðjónsson - framkvæmdastjóri Orkeyjar við afhendingu kolefnis- og sjálfbærnivottunar á lífdíselframleiðslu sína.

Orkey hefur fengið alþjóðlega kolefnis- og sjálfbærnivottun, ISCC EU, á lífdísilframleiðslu sína á Akureyri fyrst fyrirtækja sem framleiða lífeldsneyti hérlendis.

ISCC EU vottunin er viðurkennd um allan heim og krefst þess að lífeldsneyti sé framleitt samkvæmt ströngum kröfum um umhverfisáhrif, uppruna hráefna og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Vottunin gerir kaupendum lífdísils frá Orkey kleift að nýta eldsneytið í losunarbókhald og uppfylla sjálfbærniviðmið sem eykur notagildi þess í grænum orkuskiptum í áttina að kolefnishlutlausri framtíð.

Stór áfangi og mikilvæg viðurkenning

„Þetta er stór áfangi fyrir okkur hjá Orkey og mikilvæg viðurkenning á þeirri vinnu sem lögð hefur verið í að gera lífdísilframleiðsluna okkar bæði umhverfisvæna og sjálfbæra,“ segir Ragnar Heiðar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Orkeyjar. „Við erum sérstaklega stolt af því að vera fyrst íslenskra framleiðanda á Íslandi með þessa vottun og að sýna að það er hægt að vinna verðmætt eldsneyti úr úrgangi á ábyrgan og sjálfbæran hátt og auka á orkuöryggi Íslands með innlendri framleiðslu.“

Orkey starfrækir á Akureyri framleiðslu á lífdísli úr notaðri steikingarolíu sem safnað er frá veitingastöðum og matvælaiðnaði á Akureyri og á höfðuborgarsvæðinu. Með því að umbreyta úrgangi í hreint, fjölnota eldsneyti stuðlar fyrirtækið að hringrásarhagkerfi og dregur úr losun sem annars kæmi frá urðun eða útflutningi olíunnar.

Nýjast