Sýningar Heimis Hlöðverssonar, Samlífi, og Þóru Sigurðardóttur,Tími – Rými – Efni, verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri á laugardag 17. maí kl. 15. Á opnunardegi verður leiðsögn með Heimi kl. 15.45.
Heimir Hlöðversson er margmiðlunarlistamaður og kvikmyndagerðarmaður. Hann er menntaður í kvikmyndagerð, margmiðlun og tónlist, auk þess að vera með mastersgráðu í menningarstjórnun. Heimir hefur unnið við listsköpun og kvikmyndagerð síðastliðin nítján ár, sett upp listasýningar, gert heimildarmyndir og skapað sjón- og hljóðræna upplifun fyrir söfn á Íslandi og erlendis.
Heimir Hlöðversson
Þóra Sigurðardóttir fæddist og ólst upp á Akureyri. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981 og framhaldsnámi við Det Jyske Kunstakademi í Danmörku 1991. Hún hefur sýnt víða á Íslandi og erlendis og m.a. hélt hún einkasýningu í Listasafni Íslands 2024. Verk Þóru eru í eigu opinberra safna og einkasafna hérlendis og erlendis.
Verkefnið er styrkt af Myndlistarsjóði, Ferðasjóði Muggs, Myndstefi og Starfslaunasjóði myndlistarmanna.
Þóra Sigurðardóttir