Hamrastígur og Kirkjugarðsstígur Finnur ehf bauð lægst í stígagerðina

Hamrastígur
Hamrastígur

Gengið verður til samninga við lægstbjóðenda, Finn ehf í gerð tveggja stíga á Akureyri, Hamrastígs og Kirkjugarðsstígs, en fyrirtækið átti lægsta boð í bæði verkin.

Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ segir að Hamrastígur verði um það bil 600 metra langur. Fyrstu 200 metrarnir eða svo verða á gömlum reiðvegi sem breytt verður í göngustíg. Þaðan liggur leiðin upp að tjaldstæðinu á Hömrum. „Sett verður lýsing og vonandi líka malbik,“ segir hann.

Þrjú tilboð bárust í Hamrastíginn, en um er að ræða hluta af stígakerfi frá Hagahverfi og inn í Kjarnaskóg og upp að Hömrum.

Kostnaðaráætlun var upp á rúmlega 25,5 milljónir króna. Finnur ehf bauð tæpar 23,3 milljónir króna, um 91% af áætluðum kostnaði. Geitur og gröfur og Þverárgólf buðu einnig í verkið.

Kirkjugarðsstígur

Kirkjugarðsstígur verður lagður í og við Kirkjugarða Akureyrar en Jónas segir Akureyrarbæ bera skyldu til að leggja dren á þeim slóðum og stígurinn komi í framhaldinu svo að segja sjálfkrafa. Drenlögnin sé á um 3 metra dýpi. „Skurðurinn verður því breiður og fyrir vikið er kjörið að nýta það svæði fyrir stíg. Utan kirkjugarðsins verður stígurinn framlengdur að hringtorginu við Miðhúsabraut/Naustabraut, um það bil 90 metra, en innan kirkjugarðs verða um það bil 150 metrar,“ segir Jónas.

Kostnaðaráætlun vegna Kirkjugarðsstígs er 18,5 milljónir króna. Finnur ehf bauð rúmar 13,6 milljónir eða 74% af áætluðum kostnaði. Geitur og gröfur buðu einnig í verkið.

Verklok beggja verkefna eru áætluð í haust.

Nýjast