Píluæðið heldur áfram á Húsavík

Gummi Lilla (t.v.) ásamt Jónasi Halldóri Friðrikssyni, framkvæmdastjóra Völsungs eftir leik í B-úrsl…
Gummi Lilla (t.v.) ásamt Jónasi Halldóri Friðrikssyni, framkvæmdastjóra Völsungs eftir leik í B-úrslitum síðasta vetur. Myndir: Píludeild Völsungs/Facebook.

Það er blússandi gangur í píludeild Völsungs á Húsavík, þar sem áhugi bæjarbúa á þessari sívaxandi íþrótt hefur farið fram úr björtustu vonum. Í samtali við Vikublaðið segir Guðmundur Þráinn Kristjánsson, oftast kallaður Gummi Lilla, formaður deildarinnar, að pílan sé í stöðugri sókn og aðsóknin meiri en nokkru sinni fyrr.

„Við erum með tvo fasta æfingadaga í viku, auk kvennakvölda á miðvikudögum,“ segir Gummi. „Svo reynum við að hafa sveigjanleika í þessu, því það er svo mikil aðsókn í salinn – sérstaklega frá fyrirtækjum í bænum sem nýta aðstöðuna fyrir starfsmannahittinga. Ég held að flest fyrirtæki í bænum séu búin að koma.“

Pílusalurinn, sem staðsettur er í kjallara Sundlaugar Húsavíkur, hefur reynst frábær vettvangur fyrir fjölbreytta samveru – hvort sem um er að ræða æfingar, mót, fjölskyldustundir eða aðra félagslega viðburði. „Það er gaman að sjá fjölskyldur koma saman, foreldra með börn sín, og eiga notalega stund við píluspjaldið,“ bætir Gummi við.

Mót og meistaratitlar

Píludeildin heldur reglulega mót og er þátttakan jafnan góð. „Við héldum nýverið deildarkeppni Völsungs þar sem 22 kepptu, og allir skráðir í deildina geta tekið þátt. Um síðustu helgi tóku Snorri Gunnlaugsson og Sævar Örn Guðmundsson þátt í landsmóti, og næstu helgi[ í dag] verður haldið meistaramót í 501 – þar sem sigurvegarinn verður krýndur pílumeistari Völsungs í þeirri grein.“

Leikurinn 501 er ein vinsælasta keppnisgrein píluíþróttarinnar. Þar hefja keppendur leikinn með 501 stig og draga úr þeim með hverju kasti. Markmiðið er að ná nákvæmlega 0 stigum og klára á tvöföldum reit, t.d. ef leikmaður á 40 stig eftir þá getur hann unnið með því að hitta í tvöfaldan 20– sem krefst bæði nákvæmni og taktískrar hugsunar.

„Við höldum mót að minnsta kosti tvisvar í mánuði og skellum svo í minni skemmtimót þess á milli. Það er alltaf góð þátttaka,“ segir Gummi.

Breiður hópur og öflug þátttaka

Það sem gerir píluíþróttina svo aðgengilega er hversu breiður hópur getur tekið þátt. „Við erum með Miðjuna hæfingu í salnum einu sinni í viku, og eldri borgarar koma á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum. Þetta hentar bæði þeim sem vilja æfa af krafti og þeim sem vilja bara mæta annað slagið.“

Þrátt fyrir að deildin sé enn ung hefur hún náð ótrúlegum árangri. „Við opnum núna fyrir skráningu á nýtt tímabil og reiknum með að það fækki aðeins – enda var fjöldinn sem byrjaði með okkur gríðarlegur, vel yfir hundrað manns,“ segir Gummi og bætir við að félagið hafi slegið öll met í pílubransanum á Íslandi.

Ástríða og samfélagsleg tenging

Í  viðtali við Vikublaðiðfyrr á árinu lýsti Gummi því hvernig ástríða og sjálfboðaliðastarf hafi verið lykillinn að velgengni deildarinnar. „Við höfum fengið styrki frá Norðurþingi og fyrirtækjum í bænum, en félagar deildarinnar hafa sjálfir lagt hönd á plóginn í uppbyggingu aðstöðunnar,“ sagði hann þá.

Það er ljóst að píluíþróttin hefur fest rætur á Húsavík og að framtíðin er björt. Með öflugu starfi, fjölbreyttum viðburðum og aðgengi fyrir alla aldurshópa er Völsungur að skapa samfélag í kringum íþrótt sem áður var lítt stunduð á svæðinu – og það með eftirtektarverðum árangri.

Guðmundur málari (í miðjunni) er mikill pílumaður og það varð að fylgja mynd af honum, þó aðallega vegna þess að hann er í svo glæsilegum Obituary-bol. Honum á hægri hönd er Sævar Örn Guðmundsson og Snorri Gunnlaugsson gefur þeim þumalinn til að stilla fókusinn.

                  

Nýjast