Byggðaráð Norðurþings samþykkti á fundi á mánudagskvöld umsókn frá PCC um að taka frá fyrir sig landsvæði á Húsavík til byggingar á um það bil 40 íbúðum á meðan fyrirtækið kannar nánar hvort það ætli að ráðast í þessar framkvæmdir. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum hefur PCC hug á því að hefja framkvæmdir innan fárra mánaða. Sveitarfélagið setur þó þann varnagla að lóðirnar eru aðeins teknar frá í 6 mánuði, sem er gert svo ekki sé verið að valda ákveðna reiti ef ekkert skyldi gerast í framkvæmdum. Svæðið sem um ræðir heitir samkvæmt deiluskipulagi Holtahverfi; en er í daglegu tali meðal Húsvíkinga kallað Stekkjarholt, og tvær fjölbýlishúsalóðir við Lyngbrekku. Jafnframt er óskað eftir heimild til að vinna tillögu að breytingum á deiliskipulagi umræddra svæða þannig að það falli betur að hugmyndum þróunarfélagsins.
Ef af verður munu þessar framkvæmdir koma sér afar vel fyrir Húsavík, en mikill skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði í bænum eins og dagskráin.is hefur fjallað um. PCC hyggur á opnun kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík í lok árs 2017. Það er því gert ráð fyrir að íbúum muni fjölga talsvert á næstu árum, þörfin er því aðkallandi. EPE