Akureyrar-latinsveitin Molta spilar í Hlíðarfjalli á Páskadag, sunnudag kl. 13. Hægt að nálgast allar upplýsingar um aðstæður
og skipulagða dagskrá í fjallinu á vefnum www.hlidarfjall.is. Þess má til gamans geta að í verslunarmiðstöðinni
Glerártorgi verður sýning yfir páskana á vegum Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á gömlum
skíðakeppnisgöllum og er óhætt að segja að þeir þeir hafi heldur betur tekið breytingum í gegnum árin. Þeir sem kjósa
frekar að sýna listir sínar á skautum geta litið við í Skautahöllinni sem er opin alla páskana. Þar er hægt að leigja allar
nauðsynlegar skautagræjur.
Áhugafólk um leikhús verður ekki svikið af heimsókn til Akureyrar um páskana. Leikfélag Akureyrar sýnir þrjú stykki;
Fúlar á móti, 39 þrep og að síðustu barnaleikritið Horn á höfði. Í Sjallanum verður Hellisbúinn
sýndur og í Freyvangsleikhúsinu í Eyjafjarðarsveit eru Dýrin í Hálsaskógi á fjölunum. Á Melum í
Hörgárdal sýnir Leikfélag Hörgdæla leikritið Lífið liggur vil. Í Ketilhúsinu verður töfrabragðasýning fyrir alla
fjölskylduna.
Af myndlistarsýningum er af nægu að taka. Fyrst er að nefna einstaka sýningu í Listasafninu á Akureyri á verkum Tryggva Ólafsson,
í GalleríBOX er óvenjuleg sýning þar sem duftker eru í aðalhlutverki, í Jónas Viðar Gallery stendur yfir sýning
Þórarins Blöndal "Ferðalangur" en einnig opnar á skírdag sýning í galleríinu á verkum Jónasar Viðars. Á Café
Karólínu opnar á laugardaginn sýning Kristjáns Péturs Sigurðssonar og hefur hún yfirskriftina "Rauðaþögn á ferð og
flugi". Það verður líflegt í Menningarsmiðjunni Populus Tremula um páskana. Á skírdag opnar Rut Ingólfsdóttir
ljósmyndasýningu sem hún nefnir ANNARS KONAR LANDSLAG og á laugardagskvöld verða tónleikar í Populus Tremula þar sem fram koma Tinna
Marína Jónsdóttir ásamt Daníel Auðunssyni. Einnig kemur Sick Bird fram sem er að þessu sinni skipuð Konna Bartsch og Krissa Edelstein.
Tónlistin er umfangsmikil á dagskrá páskaævintýris. Fyrst er að nefna árlega páskatónleika Sinfóníuhljómsveitar
Norðurlands í Glerárkirkju á skírdag. Þar verður einleikari Bryndís Halla Gylfadóttir. Hljómsveitin Benni Hemm Hemm heldur
tónleika í Ketilhúsinu og spilar efni af nýrri væntanlegri plötu sem og gamalt efni. Í KA-heimilinu mun Kristján Jóhannsson stíga
á svið ásamt, Diddú, Huldu Björk Garðarsdóttur og fleira góðu söng- og tónlistarfólki. Kammerkórinn Hymnodia verður
með miðnæturtónleika í Akureyrarkirkju á Föstudaginn langa og hefjast þeir klukkan 23, einnig kemur fram kammersveit og ungkvennakórinn
Ísold. Græni hatturinn slær hvergi af og um páskanna verður hægt að fara á tónleika með Skriðjöklum, Hjálmum, Gunnari
Þórðarsyni og vinum, Hvanndalsbræðurum og Killer Queen.
Söfnin taka fagnandi á móti ferðalöngum og heimafólki um páskana - Minjasafnið, Flugsafn Íslands, Listasafnið á Akureyri og
Iðnaðarsafnið eru opin alla páskana. Þetta er aðeins brot af því sem hægt er að njóta á páskaævintýri á
Akureyri - frekari upplýsingar er að finna á vefnum www.visitakureyri.is.