P. Alfreðsson átti lægsta tilboð í byggingu og fullnaðarfrágang íþróttamiðstöðvar við Giljaskóla á Akureyri
en alls sendu þrjú fyrirtæki inn tilboð.
P. Alfreðsson bauð 622,3 milljónir króna í verkið, eða 104,7% af kostnaðaráætlun, sem var upp á um 594,2 milljónir króna. P.
Alfreðsson og Ístak hf. sendu einnig inn frávikstilboð og í þeim báðum var um að ræða útfærslu á þakeiningum.
Frávikstilboð P. Alfreðssonar hljóðaði upp á 602,9 milljónir, eða 101,5%. Ístak hf. bauð 707,3 milljónir króna í
verkið, eða 119% af kostnaðaráætlun. Frávikstilboð fyrirtækisins var upp á 694,3 milljónir króna eða 116,9%. Þriðja
tilboðið átti SS Byggir, 709 milljónir króna, eða 119,3% af kostnaðaráætlun. Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar hefur samþykkt að
ganga til samninga við P. Alfreðsson.
Um er að ræða nýtt íþróttahús sem hýsa mun 2 sali til íþróttaiðkana, annars vegar er um að ræða
fimleikasal (stærð 36×33×7m) og hinsvegar leikfimisal (18×33×7m). Byggingin er að hluta til á 2 hæðum, en niðurgrafin þannig að
gólfflötur íþróttamiðstöðvar er sá sami og kjallari Giljaskóla og tengist skólanum um tengigang. Brúttó stærð
byggingar er: 2.723 m², brúttórúmmál er 19.939 m³ og lóðaframkvæmdir eru á um 5.800 m². Frágangi innanhúss skal
lokið 15. júní 2009 og framkvæmdum utanhúss skal að fullu lokið 31. júlí 2009.