Sl. föstudag fóru fram upptökur á sjónvarpsefni til notkunar í sýningunni. Upptökurnar fylgdu reglu leikritsins því þar léku börn fullorðna og fullorðnir léku börnin. Sigurður leikstýrði því þremur átta ára drengjum í Dressman-auglýsingu, 9 ára stúlku sem leikur fréttakonu og 45 ára karlmanni sem leikur í bleyjuauglýsingu. Rúmlega 500 börn tóku þátt í áheyrnarprufum fyrir sýninguna en 17 börn hlutu hlutverk og hófu þau æfingar ásamt fullorðnum leikurum sýningarinnar í maí sl. Upptökum á lögunum 12 í sýningunni er lokið og er geisladiskur með tónlistinni væntanlegur í verslanir eftir tvær vikur. Þá kemur leikritið einnig út í nýrri útgáfu á vegum Eddu útgáfu.
Í Óvitum er allt á hvolfi. Þar minnkar maður með aldrinum, fullorðnir leika börn og börnin leika þá fullorðnu. Það er þó ekki fyrr en Finnur strýkur að heiman sem allt fer endanlega í háaloft. Lögreglan og hjálparsveitirnar hefja leit, pabbi og mamma eru miður sín og jafnvel skólastjórinn brestur í grát. En í miðjum látunum eignast Finnur nýjan vin og uppgötvar ýmislegt um lífið og hvernig það er að verða lítill.