Óvenjumargir sótt um fjárhagsaðstoð síðustu mánuði

Akureyrarbær veitti óvenjuháa upphæð til  fjárhagsaðstoðar í liðnum febrúarmánuði og stærri hópur en áður hefur fengið grunnframfærslu.  Hið sama virðist vera upp á teningnum varðandi marsmánuð, en endanlegar tölur liggja ekki fyrir.  

Karólína Gunnarsdóttir hjá fjölskyldudeild Akureyrarbæjar segir að aðalbreytingin sé fólgin í því að fleiri en áður fái nú aðstoð, en þar er um að ræða hóp fólks sem ekkert hefur sér til framfærslu og eða þá atvinnuleysisbætur að hluta til. „Fjölgunin hjá okkur felst þannig að hluta í því að fólk er búið með rétt sinn hjá Vinnumálastofnun og leitar því til okkar," segir Karólína.

Til stendur að ráða fjármálaráðgjafa hjá Akureyrarbæ í samstarfi við Vinnumálastofnun sem m.a. sinnti fólk sem lent hefur í vanda með greiðslur t.d. á leikskólagjöldum eða gjöldum vegna skólamáltíða.  Á fundi almannaheillanefndar á dögunum kom fram að það væri mögulega fyrsta skrefið að því að fá aukna þjónustu frá Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna til Akureyrar.  „Við vonum að ráðning fjármálaráðgjafa sé rétt handan við hornið," segir Karólína.  Ráðgjafinn myndi hafa aðsetur á Fjölskyldudeild og vinna við að aðstoða fólk í verulegum skuldavanda, en Karólína segir að gert sé ráð fyrir að samvinna takist við Rágjafastofu um fjármál heimilanna varðandi málið en stofan sé tilbúin til samvinnu við Akureyrarbæ.

Nýjast