Hér er allt morandi í fugli, ég hef sjaldan sé jafnmarga fugla og nú í vetur og vor, segir Gylfi Gunnarsson útgerðarmaður í Grímsey, en hann segir fuglinn mun fyrr á ferðinni en vant er, og hafi sest upp í bjarginu viku eða allt að 10 dögum fyrr. Ég sá fyrstu lundana hér í byrjun apríl og bjargið var fullsetið fugli snemma í þessum mánuði. Þetta er mjög jákvætt og merki um lífríkið er í góðu jafnvægi hér um slóðir þó fræðingar sjái bara svart, segir Gylfi. Raunar veit ég ekki til að þeir hafi mikið verið hér á ferðinni, þó sáust tveir í fyrrsumar sem eitthvað voru að skoða.
Gylfi segir menn sammála um að óvenju mikið sé af fugli í kringum Grímsey. Sjálfur hefur hann sigið í björg í eynni frá því um 1975 og segir að frá þeim tíma hafi eggjataka aukist um 60%. Eggjatakan hefur aukist mikið frá því ég byrjaði að síga og einkum og sér í lagi núna síðustu 10 ár eða svo, segir hann.