Óvæntur sigur Bjarnarins gegn SA í kvöld

Björninn gerði sér lítið fyrir og sigraði Skautafélag Akureyrar nokkuð óvænt í kvöld á þeirra eigin heimavelli er liðin mættust í Skautahöll Akureyrar á Íslandsmótinu í íshokkí karla. SA hefur haft gott tak á liði Bjarnarins undanfarna leiki en urðu að lúta í lægri hlut í kvöld. Lokatölur leiksins urðu 5:4 sigur Bjarnarsins. Þar með missti SA af kjörnu tækifæri til þess að komast uppfyrir SR á toppi deildarinnar en Bjarnarmenn eiga með sigrinum enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

SA hafði yfir 3:2 eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta bættu liðin við sitthvoru markinu og staðan því 4:3 fyrir heimamenn fyrir þriðja og síðasta leikhluta. Þar höfðu gestirnir betur og sigruðu 5:4 og hafa nú unnið tvo leiki í röð í deildinni.

Rúnar Freyr Rúnarsson skoraði þrennu fyrir SA í kvöld og Orri Blöndal eitt mark.

SA er í öðru sæti deildarinnar með 17 stig en Björninn er kominn með 9 stig í þriðja sæti.  

Nýjast