Óútgefnu efni stolið úr tónlistarskólanum Tónrækt

Magni Ásgeirsson. Mynd: Þröstur Ernir
Magni Ásgeirsson. Mynd: Þröstur Ernir

Brotist var inn í tónlistarskólann Tónrækt sem er til húsa í Amarohúsinu í Hafnarstræti á Akureyri, aðfaranótt föstudags og talsverðum verðmætum stolið.

„Við vorum með hundrað krakka á Græna hattinum að spila, alveg sjúklega gaman og svo kemur einhver og eyðileggur þá stemningu gjörsamlega með þessu,“ segir tónlistarmaðurinn Magni Ásgeirsson í samtali við visir.is. Hann og samkennarar hans í tónlistarskólanum óska nú eftir vitnum að því þegar brotist var inn í tónlistarskólann.

Að sögn Magna felast verðmætin ekki í hinum gamla tölvubúnaði sem þeir námu á brott úr skólanum heldur gögnunum sem vistuð eru á hörðu diskum stúdíótölvunnar sem þeir stálu.

„Það voru teknir einhverjir smáhlutir sem skipta engu máli þannig séð en það sem skiptir höfuðmáli er að það var tekin turntölva sem að inniheldur ábyggilega eina eða tvær plötur sem búið er að taka upp,“ segir Magni.

Umrædd Tölva er stúdíó-tölva í eigu Brynleifs Hallssonar, en hann hefur gert garðinn frægan með Hljómsveit Ingimars Eydals. „Það eru ýmsir af eldri kynslóðinni búnir að vera að taka upp hjá honum og þetta er allt saman auðvitað fyrir bí því það er ekki búið að gefa þetta út,“ segir Magni.

Saxófón með tilfinningalegt gildi stolið 

Ræningjarnar höfðu einnig Yamaha-saxófón á brott með sér sem hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir einn kennara skólans. „Afi hans gaf honum hann fyrir 35 árum síðan. Það er ófyrirgefanlegt," segir Magni og bætir við:

„Allt hitt skiptir engu máli. Þetta eru einhverjar gamlar fartölvur og eitthvað drasl sem við getum alltaf keypt aftur en þegar þú liggur á einhverju sem afi einhvers gaf honum og upptökum margra ára þá er þetta orðið svolítið persónulegt.“

Þeir sem kunna að hafa orðið varir við grunsamlegar mannaferðir við Amarohúsið á umræddum tíma eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á Akureyri. Visir.is sagði fyrst frá. /EPE

Nýjast