Byggðaráð Norðurþings kom saman á fimmtudag þar sem m.a. var rætt um þá stöðu sem myndast hefur á atvinnumarkaðnum í Norðurþingi vegna tímabundinnar stöðvunar framleiðslu á kísilmálmi í verksmiðju PCC BakkiSilicon.
Fulltrúar þriggja aðila mættu á fundinn, Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC á Bakka gerði grein fyrir því sem fram undan er í rekstri fyrirtækisins. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar ræddi aðkomu stéttarfélaganna að stöðunni. Óli Halldórsson, Lilja Rögnvaldsdóttir og Hilmar Valur Gunnarsson frá Þekkingarneti Þingeyinga mættu einnig á fundinn til að ræða mögulega aðkomu stofnunarinnar sem snýr að námsframboði eða verkefnum sem hentað gætu einstaklingum tímabundið á meðan bilið er brúað á Bakka.
Þá var tekið til umræðu minnisblað sveitarstjóra um samantekt á stöðu atvinnumála og tækifæri til viðspyrnu vegna tímabundinnar framleiðslustöðvunar kísilversins á Bakka.
Byggðarráð fól sveitarstjóra að útbúa drög að erindi til ríkisstjórnarinnar með ósk um fund þar sem farið verði yfir stöðuna og framtíð atvinnuuppbyggingar á svæðinu.