Öruggur sigur KA/Þórs gegn Víkingi

KA/Þór lenti ekki í neinum vandræðum með lið Víkings er liðin mættust í KA- heimilinu í dag í N1- deild kvenna í handbolta og vann 11 marka sigur, 30:19. Það var ljóst frá fyrstu mínútu í hvað stefndi en KA/Þór skoraði fyrstu fimm mörkin í leiknum og hafði níu marka forystu í hálfleik, 16:7. KA/Þór hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og náði mest 14 marka forystu og öruggur sigur í höfn.

Martha Hermannsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs með 6 mörk, þar af 1 úr víti, og þær Inga Dís Sigurðardóttir og Unnur Ómarsdóttir komu næstar með 5 mörk. Þá varði Selma Sigurðardóttir 9 skot í marki heimamanna en Lovísa Eyvindsdóttir var með 6 skot varin.

Í liði Víkings voru Jóhanna Þóra Guðbjörnsdóttir og Guðríður Ósk Jónsdóttir markahæstar með 4 mörk hver. Í marki gestanna varði Hugrún Lena Hansdóttir 7 skot.

KA/Þór er því komið með fimm stig í 7. sæti deildarinnar en Víkingur situr áfram á botninum án stiga.

Nýjast