Heimamenn voru mun sprækari í byrjun og sóttu nokkuð að marki ÍR. Eftir nokkur ágætis færi kom fyrsta markið á 15. mínútu og það gerði framherjinn Daniel Howell. Hann slapp þá einn inn fyrir vörn ÍR eftir frábæra sendingu frá Hauki Heiðari Haukssyni og renndi boltanum að yfirvegun framhjá Róberti Erni Óskarssyni í marki gestanna. Verðskulduð forysta heimamanna.
KA-menn sóttu nánast án afláts næstu mínútur. Hallgrímur Mar Steingrímsson var nálægt því að koma heimamönnum tveimur mörkum yfir eftir hálftíma leik en Róbert Örn í marki ÍR gerði vel með að verja skot hans af stuttu færi. Skömmu síðar átti Elvar Páll Sigurðsson skot rétt yfir markið. ÍR-ingar áttu fá svör við frábærum hálfleik heimamanna og ógnuðu lítið sem ekkert. Þrátt fyrir fín færi náðu KA-menn ekki að bæta við marki fyrir leikhlé.
Staðan 1:0 í hálfleik.
KA-menn juku forystuna í 2:0 eftir rúman tíu mínútna leika í seinni hálfleik, með dyggri aðstoð Jóhanns Björnssonar í liði ÍR, sem lenti í því óhappi að skalla boltann í eigið net. Við þetta lifnuðu ÍR-ingar aðeins við en náðu þó lítið að ógna marki KA að ráði.Daniel Howell bætti svo við öðru marki sínu og þriðja marki KA á 69. mínútu með þrumuskoti fyrir utan vítateig. Staðan orðinn ansi vænleg fyrir heimamann og ekkert annað í kortunum en öruggur sigur þeirra gulklæddu.
KA-menn fengu færi til þess að bæta fjórða markinu við en það tókst ekki. Engu síður sannfærandi sigur heimamanna.
Lokatölur, 3:0.