Það gengur hvorki né rekur hjá Þór í 1. deild karla í körfubolta. Liðið lék tvo leiki um helgina og töpuðust báðir leikirnir. Á sama tíma gengur allt í haginn hjá kvennaliði Þórs sem vann sinn fjórða leik í röð um helgina í 1. deild kvenna. Í 1. deild karla sótti Þór Ármann heim sl. föstudag og þar sem lokatölur urðu 91:55 fyrir Ármanni. Wesley Hsu var stigahæstur í liði Þórs með 15 stig í leiknum og þeir Sigmundur Eiríksson og Elvar Þór Sigurjónsson gerðu 10 stig hvor. Í liði Ármanns var Halldór Kristmannsson atkvæðamestur með 24 stig.
Þór hélt svo í Hafnarfjörðinn í dag og mætti þar Haukum á Ásvöllum og lauk þeim leik með sigri heimamanna, 86:61. Líkt og gegn Ármanni var það Wesley Hsu sem var stigahæstur í liði Þórs með 16 stig, Elvar Þór Sigurjónsson skoraði 9 stig, Sigmundur Óli Eiríksson 8 stig og aðrir minna. Hjá Haukum var Elvar Steinn Traustason stigahæstur með 13 stig og næstur kom Helgi Björn Einarsson með 12 stig.
Þór hefur því einungis tvö stig í deildinni eftir sex leiki.
Ólíkt karlaliðinu er kvennalið Þórs á blússandi siglingu í 1. deild kvenna í körfubolta en Þór vann sinn fjórða leik í röð í deildinni er liðið sigraði Laugdæli, 69:33, en liðin mættust á Laugarvatni í gærkvöld. Hulda Þorgilsdóttir var stigahæst í liði Þórs með 24 stig í leiknum og þær Rut Konráðsdóttir og Erna Rún Magnúsdóttir komu næstar með 16 stig hvor.