Ólíðandi að dregið verði úr öryggi sjúklinga

Njáll Trausti Friðbertsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, hóf umræður um sjúkraflugið, Reykjavíkurflugvöll og Landspítalann í bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag. Sagði Njáll í ræðu sinni að róinn sé lífróður í málefnum Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Hann lagði fram eftirfarandi bókun á bæjarstjórnarfundinum sem var samþykkt samhljóða.

„Bæjarstjórn Akureyrar skorar á ríkisstjórn Íslands og borgarstjórn Reykjavíkur að tryggja óskerta starfsemi Reykjavíkurflugvallar og tryggja þar með öryggishagsmuni íbúa landsbyggðanna, a.m.k. þangað til jafngóð eða betri lausn finnst.  Það er með öllu ólíðandi að dregið verði úr öryggi sjúklinga og slasaðra sem þurfa að komast með hraði á  Landspítalann þar sem staðsett er sérhæfð þjónusta s.s. hjartaþræðingar, heila og taugaskurðlækningar og vökudeild. Árið 2015 voru 752 einstaklingar fluttir í sjúkraflugi þar af rúmlega 85% með flugvélum Mýflugs og tæplega 15% með þyrlum Landhelgisgæslunnar. Því miður er óraunhæft að ætla að í náinni framtíð skapist þær aðstæður í íslenskri heilbrigðisþjónustu að ekki verði þörf á að koma mörgum af erfiðustu tilfellunum sem koma upp á landsbyggðunum á Landspítalann við Hringbraut. Mikilvægt er að aðgengi íbúa landsbyggðanna að öflugustu heilbrigðisþjónustu landsmanna sé tryggt."

Nýjast