Óli Halldórsson, sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi, lýsti því yfir í gærkvöld að hann muni sækjast eftir oddvitasætinu á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar. Óli er nú í leyfi frá sveitarstjórnarstörfum út næsta ár.
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og fyrrverandi formaður flokksins tilkynnti fyrir skemmstu að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram í næstu þingkosningum en hann hefur leitt flokkinn í kjördæminu frá því að VG bauð fyrst fram árið 1999.
Óli segir í tilkynningu að undanfarin ár hafi hann tekið þátt í margvíslegu pólitísku starfi, mest í sveitarstjórn Norðurþings þar sem hann hefur setið með hléum síðustu tvö kjörtímabil. Þá hafi hann einnig verið í baklandi flokksins í landsmálapólitíkinni í gegnum tvennar kosningar og setið á þingi sem varamaður. „Í þetta skiptið hef ég ekki hug á varajakkanum. Ég mun bjóða mig fram til þess að vera í forystu VG á mínum heimavelli og leiða framboðið,“ segir Óli í tilkynningunni.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, hefur verið í öðru sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi í undanförnum kosningum og setið á þingi frá 2013.
Óli sóttist eftir varaformannsembætti VG á landsfundi hreyfingarinnar haustið 2017. Það var hins vegar Edward H. Huijbens sem sigraði kosninguna og gegndi embættinu þar til Guðmundur Ingi Guðbrandsson utanþingsráðherra flokksins tók við embættinu á síðasta ári.
Kári Gautason, framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna greindi einnig frá því í vikunni að hann myndi gefa kost á sér ofarlega á lista VG í kjördæminu í næstu kosningum en Kári kemur frá Vopnafirði.