Ólæti og slagsmál um allan bæ

Talsverður erill var hjá lögreglunni á Akureyri í gær og í nótt. Mikill fjöldi er á tjaldsvæðinu að Hömrum og var mjög mikil ölvun þar í nótt og í morgun. Mikill mannfjöldi safnaðist saman í miðbæ Akureyrar og sinnti lögregla mörgum útköllum vegna óláta og slagsmála um allan bæ. Þó nokkrar kvartanir bárust lögreglu vegna svokallaðrar "burn-out" keppni sem fór fram á Akureyrarvelli í gærkvöld. Kvartanirnar voru flestar vegna reyks og slæmrar lyktar sem að fylgdi þessari keppni.

 

Þá voru fjölmargir teknir fyrir of hraðan akstur í Öxnadalnum í gær. Lögregla er með öflugt eftirlit í og við bæinn og notar merkta og ómerkta lögreglubifreiðar við það.Tilkynnt var um að ráðist hafi verið á mann á tjaldsvæðinu að Hömrum um hálf fjögur leytið í nótt. Þegar lögregla kom á staðinn og hugðist ræða við árásaraðilann þá kom annar og veittist að lögreglumönnunum og hindraði þá við störf sín. Sá var handtekinn og árásaraðilinn sem að lögreglumennirnir hugðust hafa afskipti af í upphafi var einnig handtekinn stuttu síðar. Þeir gista nú fangageymslur.Tilkynnt var um nokkra í slagsmálum við innganginn að tjaldsvæðinu á Hömrum um fimm leytið í morgun. Einn mannanna skallaði annan í andlitið og lamdi síðan gæslumann á tjaldsvæðinu tvívegis í andlitið. Maðurinn var handtekinn og gistir nú fangageymslur. Þá var tilkynnt um hópslagsmál á tjaldsvæðinu að Hömrum um sex leytið í morgun. Tveir voru handteknir og vistaðir í fangageymslum. Þá sinnti lögregla nokkrum tilkynningum um samkvæmishávaða í heimahúsum í nótt. Alls var tilkynnt um 7 líkamsárásir í nótt. Auk þess þurfti lögregla að stöðva fjöldan allan af slagsmálum milli manna þó aðallega á tjaldsvæðinu að Hömrum.Allar fangageymslur lögreglunnar á Akureyri voru fullar og þurfti lögregla að grípa til þess ráðs að vista nokkra á biðstofum lögreglustöðvarinnar þegar mest var.

Nýjast