27. október, 2009 - 22:24
Ökumaður fólksbifreiðar var fluttur til aðhlynningar á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri á tíunda tímanum í
kvöld, eftir að bíll hans fór út af Leiruvegi, fram af háum kanti og hafnaði á hliðinni í flæðarmálinu norðan
við veginn. Samkvæmt upplýsingum á vettvangi er ökumaðurinn ekki talinn mikið slasaður en bíllinn er mikið skemmdur.
Ökumaðurinn var að aka yfir Leirubrúna til vesturs en þegar hann kom yfir brúna missti hann stjórn á bílnum í mikilli hálku
með fyrrgreindum afleiðingum. Bíllinn hafnaði sem fyrr sagði á hliðinni en hafði snúist við og snéri í öfuga átt
miðað við akstursstefnu. Hálka er á Leiruvegi og þá sérstaklega á Leirubrúnni.