Nýtt upphaf í fjölnýtingu jarðhitaafurða á Þeistareykjum

Mynd/Þingeyjarsveit.
Mynd/Þingeyjarsveit.

Fyrirtækið GeoSilica hefur skrifað undir samstarfssamning við Landsvirkjun og mun hefja starfsemi í Þingeyjarsveit næsta haust. Samningurinn var undirritaður þann 27. maí og markar upphaf nýrrar stefnu um fjölnýtingu jarðhitaafurða á Þeistareykjum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Þingeyjarsveitar.

„Nýlega fékk ég góða heimsókn frá fulltrúum GeoSilica þar sem ég fékk tækifæri til að segja þeim frá sveitarfélaginu og þau kynntu sínar fyrirætlanir,“ er haft eftir  Ragnheiði  Jónu Ingimarsdóttur, sveitarstjóra Þingeyjarsveitar í tilkynningunni. „Hefja á byggingu á húsnæði fyrir starfsemina í sumar og standa vonir til að það klárist í haust. Þá ætla þau að flytja alla framleiðsluna á Þeistareyki og hefja starfsemi þar á árinu,“ segir hún jafnframt.

GeoSilica, sem var stofnað árið 2012 af Fida Abu Libdeh og sérhæfir sig í framleiðslu náttúrulegra fæðubótarefna í vökvaformi til daglegrar inntöku. Fyrirtækið vinnur steinefni úr jarðhitavatni, meðal annars kísil, sem er eitt algengasta steinefni í náttúrunni og gegnir lykilhlutverki í líkamsstarfsemi mannsins. Kísill úr jarðhitavökva frá Þeistareykjastöð verður nýttur í framleiðslu GeoSilica á gæðavottuðum og vegan-vottuðum vörum.

Nýja húsnæðið sem Landsvirkjun reisir verður á svokallaðri fjölnýtingarlóð milli skiljustöðvar og aflstöðvar Landsvirkjunar, og mun GeoSilica fá beinan aðgang að auðlindastraumum frá jarðvarmavinnslunni.

Þá segir í tilkynningunni að samstarf Landsvirkjunar og GeoSilica sé stórt skref í átt að sjálfbærri nýtingu jarðhitaauðlinda og stuðli að aukinni atvinnuuppbyggingu, styrki innviði Þingeyjarsveitar og sé í takt við stefnu sveitarfélagsins um græna framtíð og fjölbreytt atvinnulíf.

Nýjast