Nýtt Icelandairhótel opnað á Akureyri eftir mánuð

„Framkvæmdir við hótelið ganga vel," segir Sigrún Björk Jakobsdóttir hótelstjóri á Icelandairhótel sem opnað verður við Þingvallastræti 23 á Akureyri, áður húsnæði Háskólans á Akureyri, eftir um það bil mánuð. „Við fáum húsið afhent um mánaðarmótin maí-júní og munum þá flytja inn og koma öllu fyrir og stefnum svo á að opna í annarri viku júní," segir Sigrún Björk.  

Icelandairhótel gerðu á síðasta ári leigusamning til 20 ára um rekstur heilsárshótels í húsinu og hefur í vetur verið unnið við byggingaframkvæmdir, endurbætur og lagfæringar og húsnæðið sniðið að þörfum hótelrekstrar. Alls verða 101 herbergi á hótelinu, 63 þeirra verða tilbúin nú í byrjun júní, en önnur 38 ári síðar, eða í  júní 2012. Auk þeirra herbergja sem tilbúin verða nú í sumarbyrjun verður jafnframt tekin í notkun veitingasalur og bar, en einnig eru áform um byggingu á fallegum hótelgarði. Sigrún Björk segir að bókanir fyrir sumarið séu ágætar „og ljóst að það er mikill áhugi á þessu hóteli, þannig að  ég vonast eftir góðu ferðasumri hér nyrðra," segir hún.  

„Það eru margir sem eiga góðar minningar frá námsárum sínum í þessu húsi og ég hef orðið vör við mikinn áhuga þeirra á að koma þarna inn og skoða húsið. Þeir geta þá prófað bæði veitingastaðinn og barinn í leiðinni," segir Sigrún Björk. Alls munu 25 manns starfa á hótelinu í sumar og segir hún að ráðningar hafi gengið vel, en verið er að leggja lokahönd á þær um þessar mundir.

Nýjast