Nýtt fyrirkomulag við eyðingu skógarkerfils

„Með þeim fjármunum sem við höfðum til verksins í fyrra náðum við ekki að eitra í öllu sveitarfélaginu eins og árið áður. Því urðum við að fara nýjar leiðir nú og mikil áhersla er á að verja jaðarsvæðin þannig að kerfillinn leggi ekki undir sig ný lönd,“ segir Jónas Vigfússon sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit.Í liðinni viku var haldinn fundur með landeigendum um eyðingu á skógarkerfli þar sem fyrirkomulag þessa árs var kynnt, en það gengur út á að landeigendur bera nú sjálfir ábyrgð á því að úða á sinni landareign, en sveitarfélagið leggur til eitur. Einnig verður fjármunum varið í styrki sem greiddir verða í hlutfalli við útlagðan kostnað.

„Landeigendur eru farnir að gera sér grein fyrir hvað þessi planta er mikill skaðvaldur. Margir hafa verið duglegir við að berjast við kerfilinn fram að þessu og ég hef fulla trú á að aðrir taki vel við sér nú,“ segir Jónas. Starfsmaður verður ráðinn til að hafa yfirumsjón með verkinu og hjá honum geta landeigendur nálgast eitur en þeir sem vilja hefjast handa strax geta sett sig í samband við skrifstofu sveitarfélagsins varðandi afhendingu á eitri.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur beint þeim tilmælum til landeigenda að  uppræta einnig plöntuna Bjarnarkló (tröllahvönn) en hún getur verð varasöm og breiðist hratt út.

Nýjast