Eigendur eru þau Sigurður Karl Jóhannsson og Heba Finnsdóttir, en fyrir reka þau veitingastaðinn Strikið í Alþýðuhúsinu við Skipagötu og pítsustaðinn Bryggjuna við sömu götu. Heba segir að nú standi yfir framkvæmdir við húsnæðið, en verið sé að gera á því nauðsynlegar endurbætur og lagfæringar vegna hins nýja hlutverks. Hún segir að til að byrja með verði opið þrjú kvöld í viku, fimmtudags,- föstudags,- og laugardagskvöld og þar muni plötusnúður þeyta skífum flest kvöld, en á stundum muni hljómsveitir troða upp.
„Við skiptum þessu upp, þannig að á þeim stað þar sem pósthólfin voru áður ætlum við að hafa bar með þægilegu andrúmslofti, þar verða borð og sófar, þjónusta á borðin og tónlist í lægri kantinum. Í aðalsalnum verður svo stór bar, borð, stólar og stórt dansgólf," segir Heba. Þá segir hún að salurinn muni nýtast veitingastaðnum sem veislusalur og er þegar búið að bóka hann undir veislur. Veitingar munu koma frá Strikinu.
Stefnt er að opnun Pósthúsbarsins í næsta mánuði og kveðst Heba bjartsýn á að vel muni ganga. „Við teljum að þörf hafi verið á breytingum á skemmtanalífi hér í bænum, við viljum bjóða upp á eitthvað nýtt og þá teljum við að staðsetningin í miðbæ Akureyrar sé ákjósanleg og muni nýtast vel," segir Heba. Í sumar er t.d. ætlunin að rýmka afgreiðslutímann og breyta staðnum í kaffihús yfir daginn og fram á kvöld. „Okkar stefna er sú að þetta verði skemmtilegur skemmtistaður," segir hún. „Við erum ný í þessu en bjartsýn engu að síður og teljum okkur eiga fullt erindi inn á þennan markað. Það er þó nokkur samkeppni í þessum bransa, en hún er af hinu góða, þá leggja menn sig alla fram og það ætlum við okkur að gera," segir Heba.