Nýr prestur til starfa við Akureyrarkirkju í sumarbyrjun

Fyrirhugað er að auglýsa laust til umsóknar starf sóknarprests við Akureyrarprestakall fljótlega en umsóknarfrestur verður til 18. mars nk. Nýr prestur mun taka til starfa í sumarbyrjun, 1. júní. Sr. Óskar H. Óskarsson sem var í leyfi frá Akureyrarkirkju verður áfram á Selfossi þar sem hann hefur þjónað að undanförnu.  

Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir sem sinnti hálfu starfi við kirkjuna á móti hálfu starfi skólaprests mun ekki koma til starfa á ný að loknu fæðingarorlofi. Rafn Sveinsson formaður sóknarnefndar segir að starfið verði auglýst í Lögbirtingarblaðinu innan tíðar. Starf Sólveigar Höllu verður ekki auglýst að sinni en Rafn segir að hún hafi sinnt æskulýðsstarfi að stórum hluta og það liggi mikið niðri yfir sumartímann. „Við gerum ráð fyrir að auglýsa það starf fyrir haustið, þegar æskulýðsstarfið fer af stað á nýjan leik eftir sumarfrí," segir Rafn. Valnefnd mun fara yfir umsóknir og senda tillögu sína til biskups sem skipar í starfið.  Sóknarprestur er ráðinn til 5 ára í senn. Tveir prestar, sr. Guðmundur Guðmundsson og Jóna Lovísa Jónsdóttir hafa sinnt störfum við Akureyrarkirkju að undanförnu við hlið sr. Svavars Alfreðs Jónssonar og munu gera það fram eftir vori. Þá nefndi Rafn að von væri á Jónu Lísu Þorsteinsdóttur til starfa við kirkjuna í sumar líkt og undanfarin sumur.

Nýjast