Nýr laserprentari til að prenta búfjármerki tekin í notkun

Plastiðjan Bjarg -Iðjulundur (PBI) tók á dögunum í notkun nýjan laserprentara til að prenta á búfjármerki, en vinnustaðurinn er sá eini hér á landi sem prentar á slík merki.  Með tilkomu prentarans, sem leigður er frá norska fyrirtækinu OS-ID, skapast fleiri störf á vinnustöðum, en áður var prentað á merkin í Noregi.  

Ólöf Leifsdóttir forstöðumaður PBI segir að mikið sé að gera á vinnustaðnum um þessar mundir, en nú eru starfsmenn í óða önn að útbúa lambamerki fyrir bændur, enda sauðburður á næsta leyti.  Áður fór öll áprentun á búfjármerki fram í Noregi, en í kjölfar þess að norska fyrirtækið leigði prentarann flytjast þau störf nú heim.  Magnús Kristjánsson rekstarstjóri hjá PBI segir að stefnt sé að því að auka starfsemina í kringum búfjármerkin og horft sé til þess að atvinna í kringum það skapist frá hausti og fram á vor.  Auk lambamerkjanna verða þar líka útbúin merki fyrir nautgripi, svín og eins ásetningsmerki í sauðfé. „Það er mjög ánægjulegt að þessi störf hafa nú flust heim, með því sköpum við fleiri störf hér og skörum gjaldeyri," segir Magnús.

Nú starfa 6 manns með einum eða öðrum hætti við framleiðsluna, en á vinnustaðnum starfar fólk með skerta starfsgetu og eins fólk í starfsþjálfun.  Stefnt er að því að auka framleiðsluna og jafna út sveiflur í starfsemi tengdri framleiðslu búfjármerkjanna, en með því að framleiða meira magn segja þau Ólöf og Magnús að hægt verði að bjóða hagstæðara verð. Pantanir frá bændum steyma nú inn , en fleiri hafa áttað sig á kostum merkjanna, m.a. grásleppukarlar sem merkja net sín með þeim. Hægt er að panta stórgripa- og ásteningsmerkin á vefsíðunni bufe.is en lambamerkin beint hjá PBI.  (pbi@akureyri.is)

Nýjast